
Fjórir ungir flautuleikarar úr Skólahljómsveit Kópavogs fengu skömmu fyrir jól frábært tækifæri þegar þeim bauðst að koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leika með í einu lagi á fernum jólatónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Þetta var mikil upplifun fyrir þær Aðalheiði Kristínu Ragnarsdóttur, Heiðdísi Hrönn Jónasdóttur, Hildi Örnu Hrafnsdóttur og Hrafnhildi Freyju Einarsdóttur og var mikil vinna lögð í undirbúning og æfingar fyrir tónleikana. Berglind Stefánsdóttir kennari við SK sá um að æfa og hópinn fyrir tónleikana.
Hrafnhildur Freyja segist hafa verið mjög spent fyrir þessu verkefni. „Okkur þótti þetta mjög gaman og lærdómsríkt, undirbúningurinn var mikill en við byrjuðum að æfa þremur mánuðum fyrir tónleikana. Það gerði ferlið samt ekkert minna skemmtilegt.“
Hildur Arna segir að sig dreymi um að spila með sinfóníuhljómsveit í framtíðinni og að þetta tækifæri hafi verið algjört æði. „Ég held að ástæðan fyrir því að við vorum valdar í þetta verkefni er sú að við sinnum tónlistarnáminu okkar vel og af miklum áhuga og viljum halda áfram að þroskast sem tónlistarmenn.”
Þegar þær eru spurðar nánar út í hljóðfæranámið stendur ekki á svörum. „Ég hef alltaf haft gaman af tónlist þannig að áhuginn fyrir hljóðfærum kom mjög eðlilega hjá mér og það var mjög skýrt að hljóðfæranám væri eitthvað sem að ég myndi alltaf vilja hafa með mér í framtíðinni,”segir Hrafnhildur. Hildur bætir því við að þegar hún var 9 ára að byrja að æfa á flautu fann hún strax fyrir mikilli tengingu við hljóðfærið. „Einnig lenti ég hjá geggjuðum kennara sem heitir Dagný Marinósdóttir og hún hefur alltaf haft mikla trú á mér og gefið mér fullt af tækifærum. Það að spila á flautu veitir mér svo mikla gleði og hamingju. Flautan hefur hjálpað mér í gegnum margt og fólkið sem ég hef kynnst í gegnum námið er stór og mikilvægur partur í lífi mínu núna.“
Það að koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands er eins og að spila með landsliðinu í hljóðfæraleik svo það er óhætt að óska þessum ungu flautuleikurum og kennurum þeirra til hamingju með áfangann.