Alexandra Björk Magnúsdóttir, elsti nemandi 9. bekkjar Hörðuvallaskóla, tók við fyrstu spjaldtölvunni fyrir hönd nemenda í 8. og 9. bekk skólans í morgun. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti Alexöndru tækið.
„Við höfum alltaf verið stolt af skólunum okkar í Kópavogi, en vitað um leið að það er ekki vænlegt til árangurs að standa í stað, spjaldtölvuvæðing grunnskólanna er byltingarkennt verkefni sem við erum stolt af og hlökkum að framkvæma,“ sagði bæjarstjóri Kópavogs við tækifærið.
Í kjölfarið var vígt glæsilegt húsnæði unglingadeildar Hörðuvallaskóla í Kórnum. Þar hafa verið innréttaðar sjö skólastofur og starfsmannaaðstaða og verða fleiri stofur teknar í notkun um áramót.
Nemendur í 8. og 9. bekkjar Hörðuvallaskóla og annarra grunnskóla í Kópavogi fengu svo afhentar spjaldtölvur í skólastofum sínum og er þar með spjaldtölvuvæðing grunnskóla Kópavogs hafin af fullum krafti.
Tæplega 900 tæki eru afhent að þessu sinni en innleiðing spjaldtölva í grunnskóla í Kópavogi hefst með þessum tveimur árgöngum. Sjötti og sjöundi bekkur fær spjaldtölvur upp úr áramótum og síðustu tveir árgangar næsta haust. Allir grunnskólakennarar í Kópavogi fengu spjaldtölvur í júní síðastliðnum.