Nýjasta íþróttafélagið í Kópavogi heitir því óvenjulega nafni Stál-úlfur. Við fengum Algirdas Slapikas, sem fer fyrir Stál-úlfi, til að fræðast nánar um þetta óvenjulega félag; sögu þess og starfsemi.
Hvenær var félagið stofnað og hvar hefur það aðstöðu?
„Félagið var stofnað í byrjun ársins 2010 af þekktum Litháískum íþróttamönnum, búsettum hér á landi. Hugmyndin og tilgangur félagsins er meðal annars að búa til vettvang fyrir íþróttaáhugamenn af erlendum uppruna; hvetja til heilbrigðra lífshátta, efla sjálfsmynd og aðstoða innflytjendur að aðlagast íslensku samfélagi. Þetta gerum við með því að stuðla að virkum og skemmtilegum samskiptum milli Íslendinga og innflytjenda í gegnum íþróttir. Þátttaka í íþróttastarfi rýfur bæði einangrun fólks af erlendum uppruna, eflir samkennd og vináttu. Félagið hefur aðstöðu í Kórnum.“
Hver er sagan á bak við nafn félagsins?
„Við þurftum að stofna félagið til að verða löglegir á Íslandsmótinu í 2. deild karla í körfuknattleik. Nafnið: „Lituanica“ var ekki samþykkt hjá ÍSÍ og því völdum við íslenskt nafn sem tengist landi okkar á einhvern hátt. Þetta má að miklu leyti rekja til sögu um Vilnius – höfuborgar Litháens. Í þessari sögu er talað um járn-úlf sem Gediminas, hertogi, sá í draumi sínum. Við vorum ekki lengi að ákveða okkur en vildum bæta aðeins um betur því stál er sterkara en járn. Þannig kom nafnið „Stál-úlfur“ til. Allir sem hafa áhuga og vilja fræðast meira um nafnið – geta lesið sögu Vilnius.“
Hvað eru margir iðkendur í félaginu og er það fyrir bæði kyn?
„Samkvæmt nýjustu tölum frá ÍSÍ erum við með yfir fimmtíu iðkendur í knattspyrnu og tæpega þrjátíu í körfubolta. Meira en helmingur af þeim koma reglulega á æfingar og keppa fyrir hönd félagsins. Eins og staðan er í dag erum með tvö karlalið; meistaraflokk karla í körfubolta og meistaraflokk karla í knattspyrnu. En það getur breyst fljótt ef áhuginn á félaginu eykst,“ segir Algirdas.
Er Stál-úlfur einungis fyrir fólk af erlendum uppruna?
„Félagið er opið fyrir alla. Fólk af erlendum uppruna er velkomið og einnig Íslendingar sem vilja stunda íþróttir. Bæði liðin okkar eru byggð upp á fjölmenningarlegan hátt. Leikmenn liðanna eru af ólíkum uppruna. Við höfum leikmenn frá Litháen, Póllandi, Portúgal, Úkraínu, Serbíu, Filipseyjum, Ítaliu, Ekvador og frá Íslandi, enda allir velkomnir að taka þátt. Í fyrra léku sex Íslendingar í knattspyrnunni og tveir í körfuboltaliðinu.“
Hver hefur verið helsti árangur ykkar hingað til?
„Við vorum tvö ár í röð Íslandsmeistarar í götubolta á vegum KKÍ. Körfuboltalið okkar er að spila sitt fimmta tímabilið í 2. deild. Besti árangurinn var strax á fyrsta árinu þegar við komumst í úrslitakeppni og urðum í fimmta sæti. Fótboltalið okkar er að fara núna inn í sitt fjórða starfsár. Síðasta sumar vorum við hársbreidd í að komast í úrslitakeppni 4. deildar. Við enduðum í þriðja sæti með sama stigatölu og Skínandi, sem er varalið Stjörnunar í Garðabæ, vegna slakari markatölu. Fyrstu tvö lið komust í úslitakeppnina. Við erum ungt félag og reynum að bæta okkur í framtíðinni.“
Hvar eru æfingar haldnar?
„Æfingar okkar eru að mestu leyti haldnar í Kórnum bæði í körfu- og fótbolta. Á vetrartímanum erum við með fótboltaæfingar á gervigrasi við Fagralund því engin lýsing er á gervigrasvellinum fyrir utan Kórinn.“
Af hverju ætti fólk að æfa með Stál – úlfi? Hvað gerir ykkar félag sérstakt?
„Fólki gefst tækifæri á að iðka íþróttir í fjölmeningarlegum hópi og um leið að kynnast menningu annara. Að sjálfsögðu væri frábært að taka upp barna- og unglingastarf í framtíðinni, en fyrst og fremst þurfum við að byggja upp traust félagsins. Vinna með yngri flokka er mikil ábyrgð og við viljum ekki byrja á einhverju sem við getum svo ekki staðið við. Við ætlum að kynna starfsemi okkar áfram og þetta tel ég vera góða byrjun.“
Hvað hefur verið erfiðast – og hvað skemmtilegast í þessu starfi?
„Það hefur bæði verið erfitt – en gaman – að stýra fjölmenningarlegum hópi. Ólík tungumál, hefðir og trúarbrögð gera vinnuna stundum erfiða en á sama tíma læri ég stöðugt einhvað nýtt. Félagið var stofnað á erfiðum tímum þegar allt var hér á niðurleið. Á hverju ári missum við marga góða leikmenn sem sækja til síns heima vegna atvinnuleysis hér. En í heildina er þetta mjög skemmtilegur og góður félagsskapur. Við erum að byggja upp mjög gott, fjölmenningarlegt, íþróttafélag í Kópavogi. Ég vil nota tækifærið og hvetja sem flesta íslendinga til að kíkja til okkar,“ segir Algirdas Slapikas, formaður íþróttafélagsins Stál-úlfur í Kópavogi.
Netfangið er: stalulfur@gmail.com og síminn er: 663-6268.