Leikarinn og formaður Regnbogabarna Stefán Karl Stefánsson skrifaði þetta á facebook síðu sína gær:
Jæja, þá byrja skólarnir á fullu aftur í fyrramálið. Má ég biðja kennara og skólastjórnendur um að fara vel með börnin, beita þau ekki óþarfa hörku og ósanngirni, virða rétt þeirra og lög sem vernda þau, skoðanir þeirra og almen mannréttindi. Setja þau ekki í óþægilega stöðu gagnvart öðrum í bekknum eða skólanum sem sært gæti líðan þeirra og persónu. Gæta að því að við erum öll með sérþarfir, við fæddumst öll með þá greiningu að vera einstök og þurfum því öll á mismunandi hjálp að halda. Og að lokum minna á það að börn eiga alltaf að njóta vafans. Ef starfsmaður skóla liggur undir grun um að beita börn harðræði eða jafnvel ofbeldi að viðkomandi sé þegar í stað vikið úr starfi, þó ekki sé nema tímabundið, meðan málið er rannsakað. Viljið þið fara vel með þau.
Má ég biðja foreldra og forráðamenn barna að taka virkan þátt í skólastarfinu og allri skólamenningunni sem heild, gera þá kröfu á börnin okkar að þau virði og hvetji aðra í kringum sig og stundi almennt góð samskipti. Virða rétt og skoðanir, menningarlegan bakrunn í víðasta skilningi o.s.fv. Má ég líka biðja um það að þið takið strax og óhikað á málum sem kunna að koma upp, hvort sem þau tengjast ykkar barni eða öðrum börnum svo að við getum komið í veg fyrir þjáningar, kvíða og vanlíðan barnanna okkar.
Og krakkar, má ég biðja ykkur um að vera vinir, virða hvert annað og passa að segja alltaf frá því ef einhver er vondur við ykkur, ef einhver er vondur við einhvern annan, láta vita, segja alltaf frá svo að öðrum líði ekki illa.
Má ég biðja okkur sem samfélag að fara að öllu með gát í þessum málum og standa saman og vinna saman að því markmiði að draga úr ofbeldi gegn börnum, sama hver verður fyrir því eða hver beitir því. Það er ekki nógu gott ástand á Íslandi í þessum málum og við verðum að standa okkur öll betur, fara að leiða hugann að þessum málum af meiri þunga og af meiri festu.
Má ég að lokum biðja ykkur umfram allt annað að njóta hvers dags og þakka fyrir hvern sigur sem við vinnum í lífinu, í skólanum, litla og stóra.
Eigið góða skóla og vinnuviku.