Það eru naprar kveðjur sem við í Smárahverfi fáum á þessum sunnudegi. Úti er bylur og rétt í þessu voru 7 stoppistöðvar Strætó í hverfinu að gufa upp – allur gangur á stöðvar verður því þeim mun lengri í þeim verri færð.
Þessi breyting er auglýst á vef Kópavogs sem „Stóraukin þjónusta Strætó í Kópavogi“ í svo titlaðri fréttatilkynningu. Þar er farið yfir bættar samgöngur í öðrum hlutum Kópavogs og alveg sleppt því að minnast á að 6 stoppistöðvar í Dalsmára og Smárar syðri að auki séu lagðar af. Þær eru ekki til og hafa aldrei verið til líklega – hér greinir maður enduróm af ritverkum frá miðri 20. öld.
Ekki er þetta til að spara tíma á breyttri leið Strætó, það eru áfram 4 mínútur á milli Smáratorgs vestra og Smáralindar syðri stöðvanna. Það sem breytist er að í stað þess að keyra Dalsmárann fer nú 28 upp á Fífuhvammsveg, ekur á endann og tekur þar u-beygju í hringtorgi og keyrir svo aftur Fífuhvammsveg en nú í hina áttina.
Stöðvarnar sem detta út eru ekki þær fámennustu heldur. Við Dalsmárann og Gullsmárann (sem stendur við Smárar syðri) er að finna langþéttbýlustu svæðin í Smárunum og með þeim allra þéttbýlustu í Kópavogi öllum.
Í Dalsmáranum eru það Smáraskóli, Leikskólinn Lækur, Kópavogsvöllur, Smárinn og Fífan og allt svæðið sem Breiðablik er með, Sporthúsið og Tennishöllin. Þetta dettur allt út og færist enn lengra burtu. Á góðum sumardegi munar litlu en í tímans önn og í kafbyl, hálku, roki og láréttri rigningu – þar munar um hvert skref og hverja götu sem þarf að þvera.
Það eru auðvitað stærstu strætónotendurnir sem finna mest fyrir þessu, börnin og roskna fólkið. En það eru líka fjölmargir sem nota Strætó til að sækja vinnu og þetta hefur áhrif á marga þeirra.
Það er gífurlega mikið talað um þéttingu byggðar og þess vegna verði að byggja mun stærri hús í hverfinu en tíðkast.
Það skýtur því skökku við, og rúmlega það, að forsendur þess að þétting takist vel – góðar almenningssamgöngur – séu teknar út.
Þessi breyting kemur stórlega niður á þjónustu við bæði íbúa Smárahverfis sem og þá sem sækja þá gífurlega miklu þjónustu sem þar er að finna. Þessi breyting skilar engum hagnaði í tíma og hefur enn ekki verið kynnt íbúum, foreldrum í hverfinu eða öðrum. Engin erindi hafa borist, ekki er minnst einu orði á þetta á vef Kópavogs og eina leiðin til að finna þetta var að lesa stundatöflu leiðar 28 á nýju ári, kortið sem fylgir með henni sýnir enn Dalsmáraleiðina.
Einn fundur í Smáraskóla í nóvember var eina kynningin sem var haldin, forneskjuleg og fáheyrð eru þau vinnubrögð sem eru sýnd í þessu máli en gjörsamlega fullnægjandi virðist mat bæjarfulltrúa.
Þetta er ekki bara skammarleg breyting heldur gjörsamlega tilgangslaus ef horft er á samgöngur og tíma. Óskiljanlegt og ég mun óska eftir öllum gögnum um þetta mál frá bænum og Strætó, allt ferlið virðist í molum.