HK tekur á móti Hamri úr Hveragerði annað kvöld, miðvikudagskvöld, í 2. deild karla klukkan 19.15 og þessi leikur verður spilaður í Fagralundi en ekki á Kópavogsvelli.
Þetta verður annar heimaleikur HK í röð sem er spilaður í Fagralundi en þar lék liðið gegn KV í toppslag í deildinni fyrir tæpum tveimur vikum og þá varð jafntefli, 1:1.
HK lék einn leik í 1. deildinni í Fagralundi sumarið 2011 en hafði fram að því ekki spilað heimaleik þar frá árinu 2002.
Heil umferð er leikin í deildinni annað kvöld. Afturelding og KV, sem eru efst og jöfn með 25 stig, mætast í Mosfellsbæ en HK er með 24 stig í þriðja sætinu og síðan kemur Sindri með 21 stig í fjórða sæti deildarinnar.