Þórður Árnason heldur úti stórskemmtilegri síðu Vesturbæinga í Kópavogi á Facebook og einnig á hinum svonefnda „Flikker.“ Við tókum Þórð tali og spurðum hann fyrst hver væri ástæðan fyrir því að hann fór af stað með þessa síðu.
„Þetta var sett upp í framhaldi af Vesturbæingum í Kópavogi á „Flikkernum“ þar sem nú eru hátt í 900 myndir. Til að komast inn á „Flikkerinn“ þarf að vera búið að taka mynd af viðkomandi og þá fær sá „linkinn“ þar inn á lokaða vefsíðu. Miðað er við þá sem bjuggu í vesturbæ Kópavogs fyrir árið 1980,“ segir Þórður.
Hvernig hafa viðtökurnar verið?
„Þetta er bara búið að vera skemmtilegt og margt komið fram sem ekki kæmi öðruvísi fram í dagsljósið,“ segir Þórður.
Á síðunni eru fjölmargar myndir úr Vesturbænum, hverjar standa upp úr?
„Þær myndir sem eru skemmtilegastar eru þær gömlu sem sýna það sem áður var. Það eru örugglega til miklu fleiri myndir af svæðinu. Myndir þurfa ekki að vera gamlar til að vera athyglisverðar.“
Hvað gerir Vesturbæinn sérstakan í Kópavogi?
„Vesturbærinn er að sjálfsögðu mjög afmarkaður og einangraðist mikið með tilkomu gjárinnar. Ég var sjálfur í fyrsta árgangnum sem fór ekki í skóla í Austurbænum og takmarkaðist því mín veröld mikið af Vesturbænum,“ segir Þórður.
Hvað með aðra bæjarhluta eins og austurbæinn, þarf ekki Facebook síðu fyrir þá líka?
„Það er í gangi tilraun með Austurbæingana á Facebook og mættu menn þar vera miklu duglegri. Það er margt sérstakt og forvitnilegt í Austurbænum. Gunnar Svavarsson er mjög duglegur í þessu og Ari Karlsson.“
Hvað viltu segja að lokum við vesturbæinga?
„Ég vil ennþá ná myndum af gömlum Vesturbæingum og setja á „Flikkerinn.“ Það tekur svona eina kvöldstund að skoða það sem komið er. Heimsóknir fyrsta árið voru 22.000 – sem er ekki lítið. Hægt er að senda fyrirspurn á doddia@simnet.is,“ segir Þórður Árnason sem heldur úti síðu Vesturbæinga í Kópavogi.