Stórtónleikar á stórafmæli Kópavogs

Kópavogsbúum og öllum velunnurum bæjarins er boðið á stórtónleika í Kórnum í Kópavogi sunnudaginn 10. maí í tilefni sextugsafmælis bæjarins. Á tónleikunum koma fram 600 manns sem allir eiga það sameiginlegt að vera Kópavogsbúar eða eiga rætur sínar að rekja í Kópavog. Meðal þeirra eru Ríó tríó ásamt Snorra Helgasyni, Erpur Eyvindarson, Dr. Gunni, Salka Sól Eyfeld, Sigtryggur Baldursson, Sigga Beinteins, Stefán Hilmarsson, Eyþór Ingi, Guðrún Gunnarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson auk stórhljómsveitar undir stjórn Þóris Úlfarssonar. Þá stýrir Þórunn Björnsdóttir sameinuðum barnakór barna í Kópavogi og Össur Geirsson kemur fram með Skólahljómsveit Kópavogs en Þórunn og Össur leika lykilhlutverk í tónlistaruppeldi fjölmargra Kópavogsbúa. Einnig flytja sameinaðir kórar bæjarins lag og Gerpla kemur fram í stórbrotnu atriði.

Á tónleikunum verða saga bæjarins og saga íslenskrar dægurtónlistar fléttuð saman með skemmtilegum hætti. Flutt verða íslensk lög úr ýmsum áttum í fjölskylduvænni dagskrá.

Kynnar tónleikanna verða tengdafeðginin Helgi Pétursson og Saga Garðarsdóttir. Saga er Reykvíkingur í húð og hár og hún mun rýna í Kópavog með glöggu gestsauga en Helgi lumar á mörgum skemmtilegum sögum úr Kópavogi þegar bærinn var að slíta barnsskónum. Umsjón með tónleikunum hefur Eiður Arnarsson en listrænn stjórnandi er Felix Bergsson.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og formaður afmælisnefndar bæjarins segir markmiðið með tónleikunum að sameina Kópavogsbúa fyrr og nú í tónlist og gleði: „Hugmyndin kom til þegar við fórum að ræða alla tónlistarmennina sem búa eða eru úr Kópavogi, þeir reyndust svo margir og merkilegir að við sáum að það væri kjörið að að stefna þeim saman á stórtónleikum og bjóða bæjarbúum og velunnurum í Kórinn, sem er frábært hús undir stórtónleika.“

Tónleikarnir eru viðamesti viðburðurinn á sextugsafmæli bæjarins en auk þess verða ýmsar uppákomur og viðburðir í bænum í kringum afmælishelgina. Þar má nefna heimatónleika Björns Thoroddsen, sundlaugafjör, afmælisköku í Smáralind, félagsmiðstöðvahátíð unglinga og handverkssýningu í félagsmiðstöðvum eldri borgara. Þá verður sýning leikskólabarna opnuð á Hálsatorgi afmælisdaginn 11. maí en hún er afrakstur metnaðarfulls verkefnis leikskólanna sem staðið hefur yfir í vetur.

Afmælisnefndin Kópavogsbæjar skipa auk Ármanns, Ása Richardsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Margrét Friðriksdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Theodóra S. Þorsteinsdóttir.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn