Strandblakarar í HK gera góða hluti í Danmörku.


Berglind og Elísabet æfa og keppa í Danmörku.

Berglind og Elísabet æfa og keppa í Danmörku.

Núna er rétti tíminn til að máta tásurnar við sandinn og hoppa á eftir bolta sitt hvorum megin við net. Það gera strandblakarar í HK sem nýverið gerðu góða ferð til Danmerkur. Þær Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir eru staddar í Danmörku þar sem þær æfa og spila í dönsku deildinni. Þær hafa nú þegar unnið tvö 1.deildarmót og unnið sér inn rétt til að spila í Elite deildinni.
Leikið var í Aarhus á tveggja daga móti. Tveir riðlar voru með 4 liðum. Allir spiluðu við alla og svo í kross á seinni keppnisdegi. Veðrið var mjög gott, heiðskírt, blanka logn og um 25 stiga hiti. Það kom fljótlega í ljós að þær Berglind og Elísabet eiga heima í ELITE deildinni því leikirnir í riðlinum fóru allir 2-0 eða 21-7, 21-5 // 21-7, 21-11 // 21-13, 21-13. Á sunnudeginum spiluðu þær í undanúrslitum og unnu 2-0 eða 21-17 og 21-17 og voru þar með komnar í úrslit. Úrslitaleikurinn var meira spennandi. Fyrsta hrinan fór 21-17 og seinni hrinan var æsispennandi og reyndi á taugarnar hjá þjálfara stelpnanna, Einari Sigurðssyni. Þær voru undir alla hrinuna en náðu að jafna 19-19 og vinna 22-20. Með sigrinum eru þær búnar að tryggja sig í ELITE deildina á næsta móti en það fer fram í Kolding. Framtíðin er því björt hjá þeim Berglindi og Elísabetu í strandblakinu.

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir ásamt Einari Sigurðssyni, þjálfara.

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir ásamt Einari Sigurðssyni, þjálfara.

-Fengið af vef hk.is