„Strax tekið vel á móti okkur í Kópavogi.“

Tvær fjölskyldur sýrlenskra flóttamanna eru nú að koma sér fyrir í Kópavogi og aðlagast lífinu á Íslandi. Um er að ræða fjóra fullorðna og átta börn sem eru á öllum skólastigum, frá 20 mánaða til 18 ára. Þriðja fjölskyldan, ungt par, er væntanlegt til landsins í mars. Ibrahim Alzuragin, 41 árs löggiltur skjalaþýðandi, og kona hans Crystal Alswaidani, sem er 37 ára, féllust á að segja okkur sögu sína; um aðdragandann að flótta þeirra frá Sýralandi og um fyrstu dagana í nýjum heimkynnum í Kópavogi. Þau eiga fjögur börn; Khalil, sem er hæglátur 18 ára drengur sem stefnir á að verða forritari, Muhammed, sem er ófeiminn 14 ára strákur sem ætlar að verða læknir þegar hann verður stór, Shifaa, sem er 6 ára stúlka og ætlar líka að verða læknir og Ahmad, sem er 5 ára fjörkálfur. Fjölskyldufaðirinn, Ibrahim Alzuragin, hefur orðið:

„Við bjuggum í um tíu kílómetra fjarlægð frá miðborg Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Ég starfaði sem löggiltur skjalaþýðandi, kona mín, Crystal, var heimavinnandi og börnin gengu í leikskóla og grunnskóla. Í tíu ár hafði ég starfað í Sádi-Arabíu og aflað tekna til að koma undir okkur fótunum og eiga þak yfir höfuðið. Við vorum bara venjuleg fjölskylda, í friði og ró. Sjálfur tók ég aldrei þátt í neinum mótmælum og leiddi slíkt hjá mér.

Í janúar 2013 lenti sprengja á efri hæð hússins okkar sem splundraði því. Hefði sprengjan fallið einni mínútu fyrr þá hefði hún grandað Khalil, elsta syni okkar, sem þá var þar staddur. En sem betur fer vorum við öll á neðri hæðinni og sluppum lifandi. Við fluttum þá í hús foreld-ra minna sem stóð yfirgefið. Þau höfðu flúið yfir til Líbanon. Þar bjuggum við í 40 daga án hita og rafmagns. Ekkert okkar gat komist út vegna þess að leyniskyttur skutu á allt sem hreyfðist. Ein þeirra næstum því hæfði mig í eitt skiptið. Við urðum að lifa á matarskömmtum, á því sem til var í húsinu.

Margir búa enn við þetta ástand í Sýrlandi og eru smám saman að verða hungrinu að bráð. En okkur tókst að komast burt á svokallað „hlutlaust svæði“ þar sem stríðandi fylkingar höfðu samið um að ekki yrði tekist á. Það hélt þó ekki lengi því átök brutust einnig þar út. Í eitt skiptið létust 70 manns í átökum nálægt okkur. Mér er sérstaklega minnistæð sex ára telpa sem lét lífið þegar sprengja féll þar sem hún var að leik. Nokkrum mínútum áður voru börnin mín einmitt þar.

Ég reyndi að halda vinnu í Damaskus en kona mín megnaði ekki að vera ein með börnin á þessum hræðilega stað og beinlínis krafðist að við kæmum okkur í burtu. Við fórum yfir að landamærunum að Líbanon og skildum allar okkar eigur eftir. Eina sem við höfðum voru pappírarnir okkar og fötin sem við vorum í. Við komum löglega til Líbanon og skráðum okkur strax hjá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Í Líbanon bjuggum við í tvö og hálft ár við naum-an kost. Fyrst hjá foreldrum mín-um og síðan í dýru húsnæði.

Stórfjölskylda okkar konu minnar er tvístruð í mörgum löndum en bróðir konu minnar og önnur systir enn í Sýrlandi og eru þar í bráðri hættu. Þar geta átök brotist út við minnsta tilefni og ómögulegt er að fá heildstæða mynd af ástandinu. Enginn veit hvað mun taka þar við en ég er ekki bjartsýnn á framtíðina í Sýrlandi.

Það var erfitt fyrir okkur að afla lífsviðurværis í Líbanon og við lifðum á lánum hjá vinum og ættingjum. Okkur var tilkynnt að við gætum flutt til Íslands sem við þáðum fegins hendi. Viðtökurnar á Íslandi hafa verið framar vonum og við erum ákaflega þakklát öllum. Okkur hefur verið mætt með miklum hlýhug sem verður seint fullþakkað. Ísland er frábært land og hér býr greinilega gott fólk.

Það var strax tekið vel á móti okkur hér í Kópavogi. Fulltrúar frá Rauða krossinum og bænum hafa kynnt okkur fyrir þremur stuðningsfjölskyldum sem eru okkur innan handar. Þau hafa nú þegar reynst okkur mjög vel og munu aðstoða okkur við að aðlagast lífinu á Íslandi. Sýrlendingar eru upp til hópa opnir, félagslyndir og vilja blanda geði við sem flesta. Strákarnir mínir og ég geta einnig  talað ensku en við viljum öll leggja mikið á okkur til að geta talað íslensku. Við viljum verða hluti af samfélaginu hér og láta gott af okkur leiða. Okkur líður strax vel og finnst við vera velkomin. Hér er reyndar svolítið kalt en við höfum gluggana opna til að venjast veðrinu. Nágrannar okkar hafa líka tekið okkur opnum örmum og boðið okkur velkomin, sem er yndislegt.“

Systkinin Shifaa, sem er sex ára, og Ahmed, sem er fimm ára, eru ánægð á Íslandi.
Systkinin Shifaa, sem er sex ára, og Ahmed, sem er fimm ára, eru ánægð á Íslandi.

„Flóttafólkið er jákvætt og kappsfullt.“

Margrét Arngrímsdóttir, félagsráðgjafi, er verkefnisstjóri móttöku flóttamanna. Hún segir að það þurfi að huga að ýmsu varðandi skipulag og framkvæmd móttöku og aðlögunar að samfélaginu. „Nefna má félagsráðgjöf, læknisskoðanir, skólaheimsóknir, íslenskukennslu og samfélagsfræðslu í því sambandi. Einnig kemur að því að huga þarf að starfsumsóknum og þá þarf að skoða reynslu og menntun flóttafólksins.“ Margrét segir aðlögun þeirra flóttamanna sem eru komnir í Kópavog hafa gengið mjög vel. „Flóttafólkið er jákvætt og kappsfullt um að standa sig, læra inn á íslenskt samfélag og læra nýtt tungumál. Þau eru nú þegar búin að læra nokkur orð í íslensku á eigin spýtur og sagði til dæmis annar faðirinn við starfsmann: „Ég tala ekki íslensku.“ Þau eru mjög jákvæð fyrir að koma sér fyrir í Kópavogi og þetta hefur gengið mjög vel. Þetta eru sterkir einstaklingar sem sjá fyrir sér framtíð hér,“ segir Margrét. Hún segir að ungt par muni bætast við hóp flóttamanna og setjast að í Kópavogi í marsmánuði. „Þetta er verkefni sem er í sífelldri þróun og er horft til annarra sveitarfélaga sem hafa reynsluna. Þekking er að verða til í sveitarfélaginu sem það mun búa að í framtíðinni.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn