Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega þáttöku.

Á hverju ári eru á dagskrá myndlistarsýningar, viðburðir, gjörningalistaverk, tónleikar, upplestur, sýningar, dansverk, götulist og vinnustofur sem eru öllum opnar. Allar sýningar fara fram í Hamraborgarhverfinu þar sem verslanir, skrifstofur, almenningsstaðir, barir og veitingastaðir breytast í sýningarrými í viku.
Hamraborg Festival er árleg hátíð sem haldin hefur verið frá árinu 2021 en hátíðin spratt út frá sýningarrýminu Midpunkt sem rekið hefur verið af listamönnum í Hamraborg síðan 2018. Hátíðin er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs.



