Styrktarleikur HK og Breiðabliks í meistaraflokki karla í fótboltanum vegna Bjarka Más Sigvaldasonar er í kvöld, fimmtudagskvöld, í Kórnum klukkan 19.00. Allur aðgangseyrir og allar tekjur renna til Bjarka og fjölskyldu hans.
Bjarki Már verður 27 ára í næstu viku. Hann spilaði með HK upp alla yngri flokkana, var fyrirliði Íslandsmeistara 4.flokks árið 2001 og lék með U17 ára landsliðinu. Sautján ára var hann kominn í meistaraflokk HK og lék þar síðast keppnistímabilið 2012 en varð að taka sér frí eftir það vegna veikindanna.
Bjarki hefur undanfarin ár háð erfiða baráttu við krabbamein sem hefur tekið gríðarmikinn toll. Kópavogsfélögin vilja sýna stuðning í verki með þessum leik og vonast til þess að Kópavogsbúar og aðrir komi í Kórinn og styrki Bjarka og fjölskyldu hans.
Auk leiksins verða hinar frábæru SamSam systur með tónlistaratriði í hálfleik og veitingasala verður á staðnum.
Áhorfendur ráða hvaða upphæð þeir greiða í aðgangseyri, semsagt frjáls framlög. Þeir sem komast ekki á leikinn geta lagt sitt af mörkum með því að leggja inná reikning 536-14-400171, kt. 630981-0269, sem er styrktareikningurinn.
Heiðursgestir á leiknum verða bæjarstjóri Kópavogs, formenn HK og Breiðabliks og svo þau Bjarki Már og Ástrós unnusta hans.