Verðlaun í samkeppni um götuheiti í nýrri byggð 201 Smári í Kópavogi voru nýlega afhent. Um er að ræða nýja 620 íbúða byggð sem mun rísa í Smáranum, sunnan Smáralindar. Almenningi gafst tækifæri á að taka þátt í leik um útfærslur íbúða og hverfis auk nafnaleiks í samstarfi við Kópavogsbæ um götunöfn og nafn á aðaltorginu í byggðinni.
Ágústa Hreinsdóttir sigraði í nafnasamkeppni en alls bárust tillögur frá um 400 manns. Bæjarstjórn Kópavogs valdi nöfn úr innsendum tillögum. Íbúagata hverfisins mun heita Sunnusmári, aðalgatan fær nafnið Silfursmári og torg upp við Smáralindina mun nefnast Sunnutorg. Ágústa var með tillögu af öllum þremur nöfnunum sem valin voru en nöfnin komu einnig fram hjá fleirum sem þátt tóku. Samhliða samkeppninni um nöfn á götum tóku tæplega 2.000 manns þátt í leik á síðunni www.201.is þar sem þátttakendum var gefinn kostur á að móta verkefnið með þróunaraðilum. Dregið var úr nöfnum þeirra sem tóku þátt og var það Hildur Einarsdóttir sem fékk verðlaunin. Báðir sigurvegararnir hlutu flugmiða frá Wow Air í verðlaun.
Ánægja með þátttöku
,,Við erum afar ánægð með hversu góð þátttaka var í nafnasamkeppninni og leiknum. Spurt var út í ýmsa hluti er varðar bæði hverfið og síðan útfærslu bygginga og íbúða. Þar kom margt spennandi og áhugavert fram. Með þessari nálgun var almenningi gert kleift að hafa bein áhrif á það hvernig hverfið, húsin og íbúðirnar mótast. Upplýsingar verða notaðar við hönnun og nánari útfærslu verkefnisins,” segir Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, sem sér um framkvæmd verkefnisins ásamt Reginn fasteignafélagi og Smárabyggð ehf.
Ingvi segir að áhersla verði lögð á fjölbreytileika í stærðum íbúða og áhersla er á að skapa góðar aðstæður fyrir fjölskyldufólk. Íbúðirnar verða frá um 50 fermetrum að stærð, og áhersla á vel skipulagðar tveggja til fjögurra herbergja íbúðir.
,,Það er afar ánægjulegt að sjá nýjan kafla hefjast í uppbyggingu Smáralindarsvæðisins. Þótt 201 Smári sé nýtt hverfi þá er það nú þegar mjög gróið og íbúarnir sem hingað munu flytja koma til með að njóta góðs að því. Það er stutt í alla þjónustu og hér eru nú þegar skólar, leikskólar og íþróttamannvirki til staðar sem og þjónusta við eldri borgara,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.