
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) skorar á ríkisstjórnina að efna samning við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um sjúkraflutninga á svæðinu sem gerður var i febrúar 2013 en hefur ekki verið undirritaður. Eldri samningur rann út í árslok 2011.
Þetta kemur fram í ályktun stjórnar SSH sem send er í dag til fjölmiðla og er undirrituð af Jóni Gnarr, borgar
stjóra og bæjarstjórnendum í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Kjósahreppi.
Skýlaus krafa um samningsefndir
Í febrúar 2013 undirrituðu samninganefndir ríkisins og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins samkomulagsgrundvöl sem nýr samningur var byggður á. Sá samningur hefur hvorki verið undirritaður né hefur ríkið greitt fyrir þjónustuna, segir í ályktun stjórnar SSH. Á meðan svo er niðurgreiða sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins sjúkraflutninga. Sjúkraflutningar eru á verksviði ríkisins samkvæmt lögum.
„Sjái ríkisstjórnin sér ekki fært að efna samninginn er ófrávíkjanleg krafa að þeir reikninar sem Slökkviliðið hefur sent vegna veittrar þjónustu verði greiddir. Að auki er brýnt að hefja viðræður um verklokaáætlun til að losa Slökkviliðið undan því að annast sjúkraflutninga, sé ekki vilji til þess að semja um þá af hálfu ríkisins á grundvelli fyrirliggjandi samkomulags,“ segir í ályktun stjórnar SSH.
Augljós hagkvæmni af samrekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga
Stjórn SSH áréttar þá skoðun sína að aðskilnaður sjúkraflutninga og slökkvistarfs sé óskynsamlegt, hvort sem horft er til fjárhagslegra eða faglegra þátta. SSH bendir á að sjúkfraflutningum hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum með tilheyrandi auknum kostnaði og er fyrirsjáanlegt að sú þróun haldi áfram vegna fjölgunar íbúa í elstu aldurshópunum.
Sveitarfélögin hafna áframhaldandi niðurgreiðslu á verkefni ríkisins
„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilja ekki halda áfram að niðurgreiða sjúkraflutninga fyrir ríkið. Virkja verður gerðan samning nú þegar og koma þannig í veg fyrir að afstaða ríkisins stefni öryggi íbúa svæðisins í hættu og laski það góða og faglega starf sem byggt hefur erið upp á sviði sjúkraflutninga hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins,“ segir í niðurlagi ályktunar SSH. Undir hana rita: Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, Ómar Stefánsson, varaformaður bæjarráðs Kópavogs, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðarbæjar, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesi og Guðný Ívarsdóttir, Kjósahreppi.