Vinir Kópavogs vilja mannvænan bæ, sem horfir til framtíðar og sýnir komandi kynslóðum virðingu. Stjórnendur vinna í umboði íbúanna og ber að hlusta á þá og svara erindum þeirra. Vinir Kópavogs munu vinna með Kópavogsbúum að skipulagi í samræmi við þarfir þeirra og óskir og fara að leikreglum.
Bæjaryfirvöld kynntu deiliskipulag miðbæjar og Traðarreita. Í engu var tekið tillit til alvarlegra og vel rökstuddra ábendinga nágranna um alvarlega vankanta. Tækifæri til þess að byggja upp miðbæ sem hlúir að mannlífi og tengir Hamraborgarsvæðið við menningarbyggingarnar, kirkjuna og Borgarholtið hinumegin gjárinnar blasir við. Bæjaryfirvöld ætla að láta það renna sér úr greipum. Við viljum nýta tækifærið, bænum og þeim sem hann byggja til heilla.
Íbúum á Kársnesi voru kynntar „vinnslutillögur“ fjárfesta að deiliskipulagi fyrir hafnarsvæðið. Gert er ráð fyrir óheyrilega þéttri og hárri byggð samtengdra húsa fram á sjávarbakkann án samhengis við fyrra yfirbragð strandlengjunnar. Uppbyggingin myndi skerða útsýni og takmarka gönguleiðir við sjóinn. Almannarými við höfnina fyrir hverskyns mannlíf víkur fyrir steypu. Öðru tækifæri til metnaðarfullrar uppbyggingar fyrir alla er klúðrað. Hvar eiga Kópavogsbúar að njóta lífsins?
Sýnt var fram á að hvorki tillagan sjálf né málsmeðferð stenst lögbundnar kröfur. Bæjaryfirvöld blessa hana samt. Deiliskipulag er á ábyrgð bæjarstjórnar og hún á að jafnaði að annast það. Bæjaryfirvöld hunsa það ítrekað og framselja fjárfestum, sem keypt hafa einstök mannvirki, deiliskipulagsvaldið. Með sinni tillögu móta þeir sýnina. Framhaldið verður tilbrigði við stefið þeirra. Þess vegna á ekki að framselja deiliskipulagsvaldið.
Ekki er hægt að ætlast til þess að fjárfestar hafi heildarsýn mótaða af almannahagsmunum. Þeirra leiðarstef er að byggja sem mest þeir mega -bærinn geti séð um almannarýmin. Vandinn er sá að svæði framselt fjárfesti til skipulags verður ekki einnig nýtt í almannaþágu.
Framboð Vina Kópavogs er viðbragð við ólíðandi ábyrgðarleysi þeirra sem fara með skipulagsvaldið.