Tekið sem opinberri sendinefnd í Norður-Kóreu

Við hjónin fórum í ferð til Kína og Norður Kóreu með Ferðaskrifstofunni Söguferðir. Við vorum tíu talsins með Jóni Árna leiðsögumanni meðtöldum. Ferðin hófst 3. október en við flugum til Peking og dvöldum þar í tvær nætur og skoðuðum meðal annars Kínamúrinn og Torg hins himnerska friðar. Við tókum lest frá Peking til landamæraborgarinnar Dandong þar sem við dvöldum einnig í tvær nætur. Frá Dandong tókum við lest til Pyongyang í Norður Kóreu. Lestin var gömul og mögulega frá gamla, fallna, Austur-Þýskalandi.

Jóhann Helgi Hlöðversson ritar hér ævintýralega ferðasögu sem hann fór í, ásamt konu sinni, til Norður-Kóreu.

Eftir mikla leit í töskum og farangri hélt lestin af stað og flutti okkur um sveitir landsins þar sem við fengum að sjá með berum augum eymd sveitalífsins. Það var ekki mikið um dráttarvélar og þesskonar þægindi heldur virtist fólk vinna baki brotnu við frumleg skilyrði. Klukkan var um sex leytið þegar við komum á leiðarenda. Þar tóku á móti okkur tveir kurteisir og brosmildir menn í svörtum jakkafötum sem áttu eftir að fylgja okkur hvert fótmál í ferðinni.

Hvarvetna mátti sjá minnismerki um þá feðga Kim Il-sung og Kim Jong-il.

Tandurhreint og óaðfinnanlegt

Það var magnað að koma inn í borgina. Þetta var eins og ganga inn í leikmynd í gamalli bíómynd. Allt var svo fullkomið! Stórglæsilegar byggingar, breiðar götur, hnarreist fólk á gangi og flest allir karlmenn í dökkum jakkafötum og konurnar í pilsum og á háum hælum. Bílarnir allir tandurhreinir og óaðfinnanlegir þótt einhverjir væru komnir til ára sinna. Það var ekki mikil umferð svo að ferðin inn á hótelið gekk fljótt fyrir sig.

Breiðar götur og allt hreint.
Sundlaug í Pyongyang.

Hótelið okkar hét Haebangsan Hotel og það kom okkur á óvart hversu glæsilegt það var. Það var farið að rökkva og flest öll ljós í borginni voru slökkt nema myndir af leiðtogunum Kim Il Sung og Kim Jong Il voru upplýstar á opinberum byggingum. Við gistum í tíu nætur á þessu hóteli og fórum í skoðunarferðir tvisvar á dag en borðuðum oftast á hótelinu í hádeginu og á kvöldin. Maturinn var góður og öll þjónusta til fyrirmyndar. Það var ekkert internet í boði og það má segja að það hafi verið einkennileg og til að byrja með óþæginleg afeitrun en þegar fór að líða á ferðina vandist það furðu vel.

Vinafélag Íslands og Norður-Kóreu

Okkur var tekið sem opinberri sendinefnd frá Íslandi þar sem ferðaskrifstofan fór í nafni Vinafélags Íslands og Norður Kóreu sem fréttamaðurinn Magnús Bjarnfreðsson stofnaði ásamt fleirum í kring um 1980. Ríkssjónvarpsstöðin elti okkur og myndaði í bak og fyrir og við vorum tekin í nokkur sjónvarpsviðtöl. Kóresku leiðsögumenn okkar ásamt bílstjóra fóru með okkur á ótal áhugaverða staði eins og skóla, leiksskóla, sjúkrahús, söfn, sýningar, verksmiðjur og samyrkjubú. Einnig fengum við að fara að landamærum Suður-Kóreu. Við fórum inn á hlutlausa beltið þar sem vopnahléssamningarnir voru undirritaðir á árunum 1951-1953. Þar kynntist ég foringja í hernum. Hann fylgdi okkur og fræddi um söguna og ástandið. Ég fékk að leyfi hjá honum til að láta mynda okkur saman en það er stranglega bannað í Norður Kóreu að mynda hermenn og lögreglu og viðurlögin geta verið hörð.  

Foringi í hernum fræddi um söguna. Leyfi fékkst til að mynda hann, en það er stranglega bannað að mynda hermenn og lögreglu í Norður-Kóreu og viðurlögin geta verið hörð.
Ríkissjónvarpsstöðin elti ferðahópinn og myndaði í gríð og erg.

Við vorum fjögur að mér og Jóni Árna meðtöldum sem fórum á fund með Herra Ritu sem er framkvæmdastjóri Evrópudeildar menningarnefndar ríkisins. Jón Árni hefur hitt hann áður og það fór vel á með þeim. Ritu starfar í ferðamálaráðuneyti Norður Kóreu og er einnig fulltrúi vináttufélags Norður-Kóreu og Íslands. Við vorum leidd inn í bygginguna með stórglæsilegum myndum af leiðtogunum. Þar vorum við leidd upp á aðra hæð og inn í stórt herbergi með rauðplussklæddum stólum sem raðað var meðfram veggjunum. Herra Ritu sat fyrir miðju herbergi og beindi spurningu sinni að mér hvernig mín upplifun á dvöl minni hefði verið. Ég sagði að þetta hafi verið mikill heiður og upplifun. Að það hefði komið mér á óvart hversu mikil framþóun væri í landinu miðað við það sem ég var búin að gera mér í hugarlund. Ég sagði honum líka að það gleddi mitt hjarta að friðarviðræður Kim Jong Un og Moon forseta Suður Kóreu hefðu farið fram nýlega og við hefðum heyrt að óstaðfestar fregnir hermdu að næstu viðræður færu mögulega fram í Vín í Austuríki. Ég sagði honum að á Íslandi værum við aðeins 350.000 manns með engan her og gerðum út fyrir að vera land friðar. Ég spurði hann hvort hann gæti komið skilaboðum til Kim Jong Un frá okkur um að skoða möguleikann á því að halda næsta leiðtogafund á Íslandi? Það væru til fordæmi um vel heppnaðan fund milli vesturs og austurs þar sem Ronald Regan og Gorbatsjov hittust i Reykjavík árið 1986.

Ég skrifaði ferðapistil í dagbókarformi sem hægt er að nálgast á Fésbókinni minni. Starfsmenn RUV komust í hann og í framhaldi af því var ég boðaður í Kastljósþátt sem sýndur var á RUV 29. október síðastliðin. Þessi ferð var stórkostleg upplifun og skilur eftir fleiri spurningar en svör.

Umræðan

Fleiri fréttir

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að

Sóley heimsmeistari

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í síðustu viku heims­meist­ari í kraft­lyft­ing­um með búnaði í +84 kg flokki og tryggði sér um leið réttinn til að keppa á Heimsleikunum (World Games) sem