Tennishöllin í Kópavogi getur laðað þúsund ferðamenn á ári

Tennis á vaxandi vinsældum að fagna hér á landi, ekki síst vegna öflugs starfs sem fer fram innan veggja Tennishallarinnar í Kópavogi sem er staðsett í Kópavogsdalnum, við hliðina á Sporthúsinu. Um 7-800 manns spila tennis í Tennishöllinni í hverri viku og komast færri að en vilja.

Upphaf tennisíþróttarinnar í Kópavogi má rekja til tennisdeildar sem var stofnuð innan ÍK upp úr 1980. Tennisfélag Kópavogs var svo stofnað um það leiti sem ÍK rann inn í HK árið 1991. Gamla Tennishöllin í Sporthúsinu var opnuð árið 1994 en árið 2007 var nýja Tennishöllin tekin í notkun. Nú er svo komið að stækka þarf hana til að koma iðkendum fyrir, og ekki síst erlendum gestum sem fer fjölgandi frá ári til árs.

Óhætt er að segja að Tennishöllin sé miðstöð tennis á Íslandi. Þar eru þrír teppalagðir tennisvellir, félagsaðstaða og búningsklefar. Í garðinum á bak við Sporthúsið og við hlið Tennishallarinnar eru þrír útitennisvellir, Crosfit svæði, tennisveggur og körfuboltavöllur sem saman mynda skemmtilegt útivistarsvæði sem er mikið notað á sumrin. Í Tennishöllinni æfa sex tennisfélög; Tennisfélag Kópavogs, Tennisdeild Fjölnis, Tennisklúbbur Víkings, Tennisfélag Garðabæjar, Tennisdeild Þróttar og Tennisdeild BH. Það er því mikið um að vera hjá Jónasi Pál Björnssyni, framkvæmdastjóra Tennishallarinnar, sem segir framtíðina bjarta í tennisíþróttinni.

Tennis fyrir alla

„Það styttist í að við íslendingar eignumst fleira afreksíþróttafólk í þessari íþróttagrein. Arnar Sigurðsson úr TFK fór í atvinnumennsku og náði góðum árangri. Hann fór upp í 600 á heimslistanum en meiddist svo í baki. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór að spila fótbolta með meistaraflokki Breiðabliks þrátt fyrir að hann hafði þá ekki æft fótbolta frá því hann var fjórtán ára gamall. Það sýnir hvesu frábær íþróttamaður hann er. Sjálfur tel ég tölfræðilega mun meiri líkur á að einn íslendingur vinni Wimbledon tenismótið heimsfræga en að ellefu íslendingar sigri HM í fótbolta,“ segir Jónas og kímir. Hann segir tennis vera frábæra íþrótt fyrir fólk á öllum aldri en um þessar mundir er Tennisfélag Kópavogs einmitt að kynna tennisíþróttina fyrir yngstu bekkjum grunnskólana í Kópavogi. Krakkarnir geta komið og fengið leiðsögn í tennis, án endurgjalds fyrstu skiptin á æfingum sem félagið kallar Mini-Tennis-Fjör og eru haldnar á miðvikudögum klukkan 14:30 og á sunnudögum klukkan12:30.

„Þau fá mikla útrás fyrir hreyfiþörf í tennis en íþróttin hentar líka eldra fólki mjög vel. Það eru fáar íþróttir sem fólk getur stundað svona jöfnum höndum út æfina. Við leggjum mikla áherslu á að ekki þurfi allir að keppa heldur er hver og einn í tennis á eigin forsendum. Ef fólk lærir að spila þá er þetta skemmtileg hreyfing fyrir lífstíð,” segir Jónas.

Líf og fjör í Tennishöllinni.
Líf og fjör í Tennishöllinni.

Fjöldi Evrópumóta á ári hverju

Þrjú alþjóðleg mót eru fyrirhuguð í Tennishöllinni á næstunni. Um páskana verður haldið Evrópumótið:„WOW Air Ice- landic Easter Open“ fyrir 12-16 ára ungmenni. Í lok maí fer fram annað Evrópumót: „Kópavogur Open,“ sem er fyrir 16 ára og yngri. Í byrjun sumars verða síðan Smáþjóðaleikarnir haldnir þar sem tennismótið fer að sjálfsögðu fram í Tennishöllinni. „Fjöldi erlendra gesta fer fjölgandi hjá okkur á hverju ári. Það eru ekki bara keppendur sem koma heldur líka þjálfarar, ættingjar og vinir. Það getur verið ótrúlegt umstang í kringum bara einn keppanda. Það eru nokkur Evrópumót í tennis haldin flestar vikur ársins víðs vegar um álfuna en Ísland er mjög vinsæll áfangastaður og það á bara eftir að aukast,“ segir Jónas sem bætir því við að fyrirhugað sé að stækka Tennishöllina til að bæta við keppnisvöllum og einnig til að stækka þjónustuaðstöðuna til að skapa rými fyrir gesti.

Aðstaðan fyrir ferðamenn í Tennishöllinni er afar þröng.
Aðstaðan fyrir ferðamenn í Tennishöllinni er afar þröng.

„Við höfum verið í vandræðum með hvað þjónustuaðstaðan okkar er lítil og við höfum því verið að skipuleggja ferðir fyrir gestina í Bláa lónið og til Reykjavíkur, sem þeir eru ansi ánægðir með, en það er lítið pláss fyrir þá hér, eins og er. Við sjáum það hæglega fyrir okkur að fjöldi erlendra ferðamanna, bara út af tennis, geti hæglega farið upp og yfir þúsund á hverju ári. Ef við náum að stækka höllina getum við fjölgað Evrópumótum og okkur dreymir um að gera Öðlingamótið okkar alþjóðlegt en það er fyrir 30-85 ára og eldri og er haldið á milli jóla og nýárs. Ég held að það yrði mót með mikið aðdráttarafl þar sem tennisspilarar myndu koma með fjölskylduna, taka þátt í tennismóti, mæta á flugelda sýninguna og brennuna. Allt gerist þetta í Kópavogsdalnum.“

Þjálfun í heimsklassa

Jón Axel Jónsson, yfirþjálfari hjá TFK, lauk nýlega hæstu gráðu hjá Alþjóða tennissambandinu en aðeins átta manns fá að taka hana á ári. Hann útskrifaðist með hæstu einkun. „Það eru ekki allir sem átta sig á því að við erum með þjálfara hér í heimsklassa en við þurfum að bæta aðstöðuna svo þeir og nemendur þeirra nái að blómstra,“ segir Jónas. Það er alþjóðlegur andi í Tennishöllinni og starfa þar meðal annars þjálfarar frá Bandaríkjunum, Slóvakíu, Brasilíu, Marokkó og Ítalíu auk íslendinga. „Við höfum fengið nemendur á sumrin erlendis frá og þetta gæti hæglega aukist, sérstaklega ef við náum árangri á alþjóðlegum vettvangi. Möguleikarnir eru því endalausir,“ segir Jónas.

Til stendur að stækka Tennishöllina úr 2250 fermetrum í 3750 fermetra en það bíður afgreiðslu skipulagsyfirvalda bæjarins.

Líf í dalnum, vestan megin við Tennishöllina.
Líf í dalnum, vestan megin við Tennishöllina.

Mikilvægt að styðja við almenningsíþrótt eins og tennis

„Mín skoðun er sú að tennisíþróttin sé skammt á veg komin hér á landi og í raun mun styttra en hjá flestum Evrópuþjóðum og í Bandaríkjunum,“ segir Jónas. „Sem dæmi  má nefna að í Hollandi eru 10% íbúa skráðir í tennisklúbb. Þar er tennis mjög stór partur af lífi fólks á öllum aldri. Það er mikilvægt að byggja upp almenningsíþrótt sem þessa og stuðla þannig að bættri lýðheilsu,” segir Jónas sem sjálfur æfir tennis þrisvar sinnum í viku og heldur sér þannig í formi.

„Þetta er svo skemmtileg íþrótt að mér finnst ég alltaf vera að leika mér en ekki þjálfa. Það er heldur engin að pína sig áfram og puða heldur er þetta einungis skemmtileg og holl hreyfing sem krefst þess líka að andlega hliðin sé í lagi.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn