Söfnun fyrir skóladrengi í þorpinu Got Agulu á Rey Cup, fótboltamót Þróttar í fyrra gekk það vel að 15 drengir og þrír fylgdarmenn gátu komið til landsins frá Kenía og dvöldu þeir í þrjár vikur í Hafnarfirði. Þeir hittu bæði veraldleg og geistleg völd, forseta, biskup og bæjarstjóra Hafnarfjarðar, kepptu æfingaleiki við stráka í Hafnarfirði, Kópavogi og á Akranesi auk þess að keppa á Rey Cup. Þeir fóru í ferð upp á Sólheimajökul, ótal sundferðir, fyrstu bíóferðina, kirkjuferðir m.a. í Lindakirkju og margt fleira. Hafnarfjarðarbær veitti góðan stuðning með því að hýsa hópinn í Lækjarskóla og fleira. JAKO Sport gaf innri og ytri íþróttaföt á mannskapinn og þar eignuðust strákarnir sinn fyrsta fótbolta. Bæði fjölskyldur og fyrirtæki buðu þeim í mat og ótalmargir gáfu föt og skófatnað sem þeir gáfu þorpsbúum þegar heim kom. Þetta var mikið ævintýri sem á eftir að verða drengjunum og fleirum hvatning í lífinu. Í Kópavogi var safnað í Digraneskirkju og gekk vel. Fyrir hönd stuðningshópsins sem stóð að baki drengjunum vil ég færa alúðar þakkir til allra þeirra sem á einn eða annan hátt gerðu dvöl drengjanna að veruleika og jafn ánægjulega og hún varð þeim.
Allur réttur áskilinn. Kópavogsblaðið slf. 2024.