
Kópavogur er þekktur fyrir blómlega menningu og hefur á liðnum árum lagt töluvert upp úr því að rækta hana og örva. Við státum t.d. af fyrsta sérhannaða tónleikahúsi landsins, en Salurinn var tekinn í notkun í byrjun árs 1999. En það er fleira en Salurinn í Kópavogi sem upphefur listir og menningu. Á vefsíðunni meko.is má finna þá öflugu dagskrá sem fram fer í menningarhúsunum okkar allt árið um kring, en auk Salarins eru það Gerðarsafn, náttúrufræðistofan, bókasafnið og héraðsskjalasafn og svo auðvitað fjöldi sjálfstætt starfandi menninga- og listastarfsemi í bænum. Allt er þetta undir einum hatti MEKÓ sem stendur fyrir Menningu í Kópavogi og endurspeglar menningarstefnu bæjarins sem felur í sér þrjár megin áherslur:
- …að menningarstarf sé aðgengilegt öllum bæjarbúum
- …að standa vörð um sérstöðu og faglegt starf menningarhúsa bæjarfélagsins
- …að leggja áherslu á víðtækt samstarf við bæjarbúa, svið og deildir bæjarins og lista-, fræði-og vísindamenn úr ólíkum áttum
Af þessum góða grunni erum við stolt og ætlum að viðhalda áfram.
Full hús af fólki
Við sem förum með stjórn bæjarins, leggjum ofuráherslu á að fá bæjarbúa til mæta í menningarhúsin, taka þátt og njóta alls þess sem þar fer fram því þetta eru jú einu sinni húsin okkar allra. Um nýliðna helgi fór fram Vetrarhátíð með ógrynni af spennandi og metnaðarfullum viðburðum allt frá sundballett til rithöfundarspjalls, eða um 25 talsins af öllum stærðum og gerðum í öllum menningarhúsunum auk Kópavogskirkju, Y Gallerýs og Salalauginni. Það var magnað að upplifa stemninguna, en um 2500 manns mættu á svæðið þrátt fyrir aftaka veður. Það er nákvæmlega svona sem við viljum hafa það – full menningarhúsin af fólki!
Menningin í hendur fólksins
Í lok síðasta árs úthlutuðum við í Lista- og menningarráði Kópavogs 26 styrkjum til hinna ýmsu lista- og menningartengdu verkefna sem vonandi komast öll á koppinn á þessu ári. Okkur bárust 56 umsóknir af ýmsu tagi og hefðum alveg viljað veita fleiri verkefnum styrk, en það bíður betri tíma. Það er því von á góðu menningarári framundan, það eina sem þú, kæri Kópavogsbúi, þarft að gera er að mæta á svæðið og njóta magnaðrar menningar í þinni heimabyggð.