Þekkir þú rétt þinn?

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, oddviti Pírata í bæjarstjórn Kópavogs skrifar um nýjar reglur NPA.

Á fundi bæjarstjórnar þann 26. nóvember voru nýjar reglur um NPA samþykktar með naumum meirihluta án þess að komið væri til móts við athugasemdir hagsmunaaðila sem fram komu í notendaráði fatlaðs fólks. Áhyggjur þeirra snúa að ákvæði um upphæð framlagsins – í reglunum segir að framlag sveitarfélagsins fyrir sólarhringsþjónustu miðist við sofandi næturvakt, en samkvæmt núgildandi kjarasamningum er gert ráð fyrir hærri taxta ef notandi þjónustunnar þarfnast vakandi næturvaktar.

Engin málefnaleg rök fást fyrir því að orða reglurnar svona. Nefnt hefur verið að það sé hætta á að notendur misnoti kerfið og sæki um framlag fyrir vakandi næturvakt án þess að hafa þörf fyrir hana. Staðreyndin er þó sú að öll velferðarþjónusta byggir á því að fyrir liggi einhverskonar mat á þörf viðkomandi til þjónustunnar. Ég furða mig á því að það þurfi að slá einhverja sérstaka varnagla með þessum hætti þegar kemur að NPA. Hver ætti að njóta vafans? 

Formaður velferðarráðs hefur kallað þetta tóman misskilning og fullyrt að sveitarfélagið muni að sjálfsögðu ávallt greiða samkvæmt þörfum notandans á sofandi eða vakandi næturvakt og uppfylla kjarasamninga. Auðvitað kemst bærinn ekki upp með annað, hér er aðeins verið að takmarka upplýsingagjöf til fólks um þá þjónustu sem það á rétt á. Ég lagði því til við afgreiðslu reglnanna í bæjarstjórn að þessu orðalagi reglnanna yrði breytt og einfaldlega látið standa að framlagið tæki mið af gildandi kjarasamningum hverju sinni. Ekki féllst meirihlutinn á þá breytingartillögu og því erfitt að lesa annað í það en að um sé að ræða hreinan ásetning. Það er að segja að það sé vilji meirihlutans að upplýsingarnar til notenda séu rangar eða í besta falli misvísandi.

Reglur sem þessar eiga að vera gagnsæjar og skýra rétt frá. Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvaða réttindi það hefur þegar það les reglurnar. Það á ekki að vera í höndum einstakra notenda að grafa eftir upplýsingum um rétt sinn og óska eftir undanþágum. Eins og stendur er það ekki ljóst við lestur þeirra að fólk eigi rétt á framlagi sem nær yfir vakandi næturvakt. Það skapar hættu á misræmi í þjónustu milli þeirra sem þekkja sinn rétt og þeirra sem gera það ekki, þeirra sem geta borið sig eftir því að sækja þann rétt og þeirra sem eiga erfiðara með það. 

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir frá árinu 2018 er skýrt fjallað um frumkvæðisskyldu sveitarfélaga en þar segir:

Sveitarfélög skulu hafa frumkvæði að því að kynna sér aðstæður fatlaðs fólks og gera því grein fyrir rétti sínum samkvæmt lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Sveitarfélag skal kynna umsækjanda þá þjónustu sem hann á rétt á og leiðbeina um réttarstöðu hans, m.a. ef hann á rétt á annarri þjónustu í stað þeirrar sem sótt er um eða til viðbótar henni.

En hvers vegna eru reglurnar þá orðaðar svona?

Er það vilji bæjarstjórnar að spara á þeim notendum sem þekkja ekki rétt sinn nægilega vel? Sem sætta sig við minni þjónustu en þeir kannski þurfa á að halda, eða greiði sjálfir mismuninn? 

Það er ljóst hver okkar skylda er. Það er ljóst hvað við ætlum að gera, hvað er áunnið með því að fara í svona feluleiki og undanbrögð með það, annað en að grafa undan trausti notenda á velferðarþjónustu Kópavogs?

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Kópavogsblaðið komið út

Stolt Kópavogs eru á forsíðu Kópavogsblaðsins að þessu sinni. Karlalið Breiðabliks er komið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Struga frá Norður-Makedóníu. Blikar leika sex leiki í

Mygla hjá velferðarsviði

Velferðarsvið Kópavogsbæjar er ekki lengur með starfsemi í Fannborg 6. Slæm loftgæði eru í húsinu sem haft hefur áhrif á starfsfólk hússins og sýna nýjustu mælingar há gildi myglugróar. Því

Stuð á Hamraborg Festival

Hamraborg Festival fór fram í lok ágúst í Hamraborg og í menningarhúsunum í Kópavogi, en Hamraborg Festival er þverfagleg hátíð með sérstakri áherslu á myndlist, staðbundin verk, gjörningalist og samfélagslega

Króníkan opnar í Gerðarsafni

Veitingastaðurinn Króníkan opnaði í sumar í Gerðarsafni. Samningur við nýjan rekstraraðila var undirritaður 11.maí, á afmælisdegi Kópavogsbæjar. Bragi Skaftason og Sigrún Skaftadóttir, systkini úr Vesturbæ Kópavogs, hafa tekið reksturinn að sér