Theodóra S. Þorsteinsdóttir segir af sér þingmennsku. Einbeitir sér að málefnum Kópavogs

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti BF Viðreisnar í Kópavogi.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi og þingmaður flokksins fyrir Suðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku um næstu áramót þegar hún verður búin að sitja sem þingmaður í eitt ár af kjörtímabilinu. Varamaður hennar, Karólína Helga Símonardóttir, tekur við sæti Theodóru á Alþingi. Sjálf segist Theodóra taka þessa ákvörðun nú því hún brenni fyrir þau verkefni sem hún er að vinna að í Kópavogi.

„Nú er ég búin að prófa þingið og mér finnst kraftar mínir nýtast betur á sveitarstjórnarstiginu,“ segir Theodóra. „Að vinna að bæjarmálum hér í Kópavogi er mjög gefandi og umfram allt skemmtilegt. Nú er ég búin að vera í þrjú ár sem bæjarfulltrúi og er komin með mikla þekkingu á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Okkur í Bjartri framtíð hefur gengið vel að koma áherslumálum áfram. Ég hef verið formaður bæjarráðs sem fer með eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess. Það hafa orðið þáttaskil í fjármálum bæjarins þar sem við erum nú laus undan eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélagsins, töluvert á undan áætlun. Rekstrarafgangur er mun meiri er gert var ráð fyrir í áætlunum og við teljum okkur vera að gera vel. Við erum að fara í gegnum mikla heildarstefnumótun með fjölmörgum úrbótatækifærum í stjórnsýslunni. Íbúalýðræðisverkefnið „Okkar Kópavogur“ hefur gefist vel og ég bind vonir við að það verkefni sé komið til að vera. Við opnuðum bókhaldið fyrst allra sveitarfélaga; erum komin á kaf í að móta stefnu í samgöngumálum með umferðaröryggi og aukna þjónustu að leiðarljósi. Síðustu tvö ár höfum við unnið með stjórnsýslunni og íbúum í að móta lýðheilsustefnu sem mér finnst eitt mikilvægasta framtíðarmál okkar Íslendinga. Nú erum við fyrsta sveitarfélagið sem hefur ráðið til sín lýðheilsusérfræðing og ég bind miklar vonir við það verkefni og hlakka til að segja frá því. Við erum að færa okkur nær framtíðinni í skólamálum með því að innleiða spjaldtölvur í skólana sem einnig er mjög stórt og metnaðarfullt skólaþróunarverkefni sem ég veit að önnur sveitarfélög eru að horfa til. Ég vil að Kópavogur verði til fyrirmyndar. Við erum að reka stærsta sveitarfélagið á landinu fyrir utan borgina og ég hef mjög mikinn metnað fyrir því að við séum fyrirmynd annarra sveitarfélaga.“

Þetta hljómar eins og þú sért komin í kosningagírinn fyrir næstu sveitastjórnakosningar í Kópavogi í vor?
„Ég er ekki mikið farin að spá í vorið. Þeir sem þekkja mig vita að um leið og bæjarmálin hér í Kópavogi er nefnd þá fer ég flug. Bæði vegna þess að ég er stolt af verkum mínum hér en einnig vegna þess að ég hef mjög mikinn áhuga á því sem ég er að gera. Hins vegar þá er galli minn sem pólitíkus sá að ég er ekki góð í að koma því á framfæri sem við erum að gera.“

Hvað er líkt og hvað er ólíkt með störfum þingmanns og bæjarfulltrúa?
„Þingstörfin hafa komið mér á óvart og snúast ekki, ólíkt störfum í sveitarfélaginu, um stefnumótun og framkvæmd verkefna. Þau eru meira eins og málstofa. Flest mál sem samþykkt eru koma úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Við þingmenn höfum svo það hlutverk að fjalla um þau en komum hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur. Reyndar geta þingmenn óskað umræðu um allt á milli himins og jarðar. Oft er sú umræða á flokkspólitískum nótum, sett upp til að berja sér á brjóst eða berja á pólitískum andstæðingum. Það hentar mér ekki enda leiða þær sjaldnast til nokkurrar niðurstöðu. Þingmenn geta auðvitað lagt fram alls kyns mál að eigin frumkvæði. Það er heldur ekki mjög vænlegt til árangurs að mínu mati því mér sýnist samið um það í þinglok að hver flokkur fái eitt þingmannamál samþykkt. Það fer því mest allur tími þingsins í umræður og framlagningu mála sem allir vita að fást líklega ekki samþykkt. Ég varð í raun mjög hissa á því hvað þingið er óskilvirkt. Ég vil frekar vinna með fulltrúum fleiri aðila að því að finna lausnir á þeim verkefnum sem blasa við, eins og við gerum í Kópavogi þar sem við reynum að vinna hlutina í sem mestri sátt við íbúa og í þverpólitískri sátt. Ég sé það því miður ekki gerast í þinginu á næstu misserum. Þar er of langt í land með þessa menningu. Ég geri miklar kröfur til sjálfrar mín um árangur af mínum störfum og ég finn að það gefur mér mun meira að vinna í sveitarstjórn hvað þetta varðar. Hins vegar mun ég gera allt sem ég get til þess að vinna með Bjartri framtíð í þeim málaflokkum sem við berum ábyrgð á í þessari ríkisstjórn. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra er að standa sig mjög vel og ég bind miklar vonir við að viðsnúningur verði hér á landi í umhverfismálum. Það sama má segja um heilbrigðismálin. Okkur er alvara þegar við tölum um að við viljum leggja áherslu á að efla heilbrigðiskerfið. Sveitarstjórnir geta komið sterkt að í eflingu heilbrigðiskerfisins, til dæmis í heimaþjónustu eldri borgara; samvinnu við heilsugæslu, í geðheilbrigðismálum, í forvörnum og lýðheilsu og mörgum öðrum málaflokkum.“

Nú hefur þú verið gagnrýnd fyrir að sitja bæði sem alþingismaður og bæjarfulltrúi í Kópavogi á sama tíma. Hefur sú gagnrýni ekkert með ákvörðun þína að gera?
„Ég sagði reyndar alltaf að ef svo færi að ég næði kjöri á Alþingi myndi ég í það minnsta klára kjörtímabilið í Kópavogi. Það eru líka mýmörg sambærileg dæmi til sem ég kynnti mér sérstaklega. Kjörnir fulltrúar í Kópavogi sinna alls kyns fullum og krefjandi störfum samhliða nefndarsetu í sveitarstjórn. Ég skal alveg viðurkenna að umræðan hefur á köflum verið harkaleg og ég hef tekið hana nærri mér. Ég hef líka grandskoðað mína stöðu ofan í kjölinn. Gagnrýnin hefur hins vegar aðallega beinst að því að ég hafi of há laun fyrir það að sitja sem kjörinn fulltrúi á báðum stöðum en ekki að verkum mínum sem slíkum. Ég tek það skýrt fram að ég gaf ekki kost á mér vegna launa enda voru þau ekki svona há þegar ég samþykkti að taka sæti á lista. Ég hef getað sinnt mínum störfum á báðum stöðum með því að nota megnið af mínum tíma til að sinna starfinu mínu á Alþingi og nefndarsetu. Ég á ekki lítil börn eða tímafrek áhugamál. Einhverjir hafa viljað meina að það kalli á hagsmunaárekstra að vera bæði í bæjarstjórn í Kópavogi og á Alþingi. Ég hef enn ekki rekist á neina ósamrýmanlega hagsmuni í þessum störfum og enn hefur enginn getað bent mér á þá heldur. Það gefur mér hins vegar yfirgipsmikla þekkingu á ýmsum málaflokkum að vera í sveitarstjórn sem nýtist mér á þinginu.“

Nú er þingmennska að minnsta kosti fullt starf og bæjarfulltrúastaðan hlutastarf þar að auki. Er það ekki einfaldlega of mikil vinna að sinna báðum störfum?
„Þingmennskan er miklu meira en fullt starf. Það eru oft langar vaktir, sérstaklega í fjárlaganefnd við afgreiðslu stærri mála. Nefndarfundir bæjarfulltrúa er utan hefðbundis  vinnutíma og það er hreinlega gert ráð fyrir því að fólk sé í störfum með því. Bæjarfulltrúar eru ekki starfsmenn sem hafa starfsaðstöðu hjá bænum. Við mætum á fundi en vinnum annað heima hjá okkur. Það er miklu meiri ástæða til að hafa áhyggjur af vinnuframlagi fólks sem á ung börn í þinginu. Vinnudagurinn í þinginu getur nefnilega verið ákaflega langur. Á álagstímum jafnvel langt fram á nótt. Þingmenn sem eiga ung börn verða einfaldlega að hafa einhvern með sér í því verkefni, ef þeir ætla að mæta í vinnuna. Þingfundir eru gjarnan nákvæmlega á þeim tíma þegar þarf að sækja þau á leikskóla, koma þeim heim, baða og gefa þeim að borða. Heilsuhraust, hress og vinnuglöð kona á besta aldri ætti ekki að vera helsta áhyggjuefni fólks. Þess utan finnst mér pínu skrýtið hvað við sem samfélag upphefjum vinnugleði stundum en ekki alltaf. Hér á árum áður vann fólk fullan vinnudag, vann aukavinnu á kvöldin og stundaði jafnvel nám. Það þótti dugnaður og elja og bókfærð mörg dæmi um upphafningu og aðdáun á slíku. Ég var, sem bæjarfulltrúi í Kópavogi, kjörin á þing og á þeim forsendum. Ég átti samtöl við fólk sem kaus listann okkar í alþingiskosningunum gegn loforði um að ég hætti ekki í bæjarpólitíkinni. Við það stend ég. Ég ítreka hins vegar að hugur minn og hjarta slær í Kópavogi og tel ágætt að setja punkt aftan við þingmennskuna um áramótin.“

 En af hverju ekki að hætta strax og hleypa þá varamanni inn?
„Einfaldlega vegna þess að ég hef ekki lokið að ýta úr vör ákveðnum verkefnum á þingi og ég ætla að gefa mér haustið til að ljúka þeim.“

Hvaða störf eru það?
„Þrátt fyrir að níu ár séu liðin frá efnahagshruninu blasa við okkur mýmörg dæmi um mistök sem við gerðum við endurreisn og uppbyggingu. Fjármálastofnanir eru nú að segja fólki upp leigu á húsnæði sem það átti áður. Bankarnir hirtu það í hruninu og skilja fólk eftir á götunni. Enn er verið að hirða eignir af fólki. Ég stóð sjálf frammi fyrir því að þurfa að höfða mál gegn Landsbankanum til að sækja rétt minn og í því máli komu í ljós ótrúlega óbilgjörn vinnubrögð banka sem er í eigu okkar allra og í raun var þar um að ræða refsiverð skilasvik. Ég hef enga trú á að það sé einsdæmi. Mig langar að leggja mín lóð á vogarskálarnar til að reyna að byggja hér manneskjulegra samfélag. Ekki til að benda á hverjum um er að kenna heldur til að beina sjónum að því hvað við getum gert betur. Ég verð ekki búin að því fyrir jól en ég á lóð sem ég held að skipti máli og ég þarf svigrúm til að leggja þau fram.“

Þú sagðir í upphafi að þig langaði að vinna nærsamfélaginu gagn. Má túlka það sem svo að þú hyggist bjóða þig fram aftur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor?
„Já. Það má túlka það þannig. Okkur hefur tekist vel upp í Kópavogi, mig langar að einbeita mér að nærsamfélaginu mínu og halda áfram að gera Kópavog betri. Það er ýmislegt sem okkur í Bjartri framtíð langar til að gera til viðbótar. Ég tel mikilvægt að taka skref í að sameina félagslega íbúðakerfið á höfuðborgarsvæðinu og setja upp þannig biðlista að fólk þurfi ekki að vera búsett í sveitarfélaginu í sex mánuði til tvö ár til þess að komast á biðlista. Það er hægt að gera betur í þjónustu við eldri borgara hvað varðar heimaþjónustu sem þarf að vinna með ríkinu. Lýðheilsu,- umhverfis,- og samgöngumálin er á meðal þeirra mála sem hægt er að bæta. Við erum á þeirri leið. Ég kom inn í bæjarmálin full af eldmóð, með góðum hug og vilja til góðra verka. Mig langar að gefa kost á mér áfram sem oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi.“

 

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

Héraðsskjalasafn Kópavogs
Fyrir Kópavog
Gerðarsafn skúlptúr
Kopavogsbaerinn
Bílar við sundlaug Kópavogs
KAI_Bikarmeistarar_2014_Telma_Kristjan
WP_20150326_10_54_43_Raw
nyjalinan
Sigurður