Ásdís Kristjánsdóttir settist í stól bæjarstjóra eftir kosningarnar í vor og hefur haft í mörg horn að líta. Eftir 100 daga í embætti skrifaði hún bréf til bæjarbúa sem vakti athygli. Þar fór hún yfir fyrstu verkefni sín í embætti. Ásdís segir mikilvægt að bæjarbúar séu meðvitaðir um hvaða verkefnum bæjarstjóri er að sinna hverju sinni og er hugmyndin sú að slík bréf verði send til bæjarbúa reglulega.
„Ég hef nýtt fyrstu vikur í embætti í að kynna mér starfsemi bæjarins enda er þetta fjölbreytt og viðamikið starf,“ segir Ásdís og bætir því við að hún hafi nýtt tímann í að kynnast starfsfólki bæjarins og bæjarbúum en hún er með opna viðtalstíma á miðvikudögum. „Ég þarf að koma mér inn í fjölbreytt verkefni Kópavogsbæjar hvort sem snýr að velferðar- og skipulagsmálum, íþrótta- og æskulýðsmálum, menntamálum og málefnum aldraðra svo dæmi séu tekin. Það mun taka tíma. Á undanförnum vikum hef ég líka verið að undirbúa áætlunargerð en sú vinna er framundan á bæjarstjórninni. Nýverið fékk ég að starfa í hálfan dag á leikskóla í Kópavogi en það var mjög fróðlegt og skemmtilegt að kynnast því starfi.“
Óánægja íbúa með hvernig haldið hefur verið á skipulagsmálum í Kópavogi síðustu ár skilaði Vinum Kópavogs tveimur bæjarfulltrúum í vor. Íbúar sem búa í grennd við miðbæinn kvarta yfir auknum umferðarþunga á Digranesvegi og hús í grennd við miðbæ og MK hafa verið að hristast og nötra í sprengingum framkvæmdaraðila. Er það ásættanlegt og hefur þú beitt þér í að lægja óánægjuraddir íbúa?
„Frá aldamótum fjölgaði bæjarbúum að meðtali um þrjú prósent á ári, sem er næstum því þrisvar sinnum meiri fjölgun en í Reykjavík og tvisvar sinnum meiri fjölgun en á landsvísu. Lengi vel var það því Kópavogsbær sem stóð sig einna best í því að útvega lóðir til að byggja. Nú er hins vegar staðan önnur og landið okkar er af skornum skammti og því þéttingarverkefni framundan. Ég skil vel að það ríki ákveðið óöryggi, óvissa og tortryggni í garð þéttingarverkefna, sérstaklega frá íbúum sem búa í grennd við þéttingarreiti. Ef við tölum bara um fyrirhugaða uppbyggingu í Fannborg þá fá byggingaraðilar þar ekki byggingarleyfi fyrr en þeir eru komnir með trúverðuga áætlun um hvernig þeir munu haga framkvæmdum. Markmið okkar er auðvitað alltaf það að sem minnst ónæði verði hjá bæjarbúum meðan framkvæmdum stendur. Auðvitað er alltaf ónæði sem fylgir því að fara í svona þéttingarverkefni en við verðum að tryggja eins lítið ónæði og hægt er og um leið haga því þannig að slíkt ónæði sé fyrst og fremst á daginn.
Því hefur ítrekað verið haldið fram af forsvarsmönnum Vina Kópavogs að það sé ekki verið að tryggja aðgengi bæjarbúa meðan á framkvæmdum stendur, eins og til dæmis gagnvart fötluðum. Það er af og frá því byggingaraðili fær ekki leyfi til framkvæmda fyrr en trúverðug áætlun liggi fyrir um hvernig framkvæmdum verður hagað og aðgengi allra bæjarbúa tryggt.
Þær óánægjuraddir sem við heyrum snúa að skorti á samráði við bæjarbúa og skorti á skýrri framtíðarsýn er snýr að uppbyggingu í bænum. Eitt af því sem við viljum bæta enn frekar samráð við bæjarbúa og kynningar á öllum stigum framkvæmda. Um það er öll bæjarstjórnin sammála. Við teljum að með auknu samráði náist jafnframt betri sátt um verkefnin framundan.
Þéttingaverkefni eru erfið meðan á framkvæmdum stendur en markmið okkar er að byggja upp fallegan, lifandi og blómlegan miðbæ við Hamraborgina og Fannborgina. Ég sé mikil tækifæri fyrir Kópavog að byggja skemmtilegan og áhugaverðan bæjarbrag sem bæjarbúar og aðrir sjái sér hag í að sækja þjónustu og menningu.”
Bæjarráð samþykkti nýlega að fela sviðsstjóra umhverfissviðs að ganga frá samningi við Hjálparsveit Skáta í Kópavogi um húsnæði þeirra og lóð á reit 13 á Kársnesi. Hvers vegna var það gert og hvaða upphæðir er hér um að ræða fyrir bæinn?
„Hjálparsveit Skáta í Kópavogi hafa kallað eftir því að finna varanlegt húsnæði og nýverið var gengið frá því í bæjarstjórn með níu samþykktum atkvæðum. Að baki liggur mikil greiningarvinna hjá meðal annars starfshópi og verkfræðistofu varðandi þarfagreiningu þessa máls. Í samningnum felst að HSSK verði áfram með aðstöðu fyrir bátaskýli við höfnina á Kársnesi. HSSK fær úthlutað lóðinni að Tónahvarfi 8 og í staðinn fær Kópavogsbær lóðirnar Bakkabraut 4 og Bryggjuvör 2 en þar hefur HSSK verið með aðstöðu.
Miðað við núverandi áform þá er gert ráð fyrir að Borgarlínan muni liggja í gegnum núverandi lóð HSSK, að hluta. Miðað við það skipulag sem er framundan þá var talið mikilvgæt að lóð HSSK yrði í eigu bæjarins að minnsta kosti tímabundið. Mikil uppbygging er framundan á Kársnesinu og þarna í kring þannig að bærinn mun fá verðmæti fyrir reitinn til baka, en í heild greiðir Kópavogsbær líkt og áður hafði verið samið um 790 milljónir króna að frádregnu virði lóðar.“
Það er eftirsóknarvert að búa í Kópavogi, íbúum fjölgaði um 533 síðustu 10 mánuði svo nú er íbúafjöldi að nálgast 40 þúsund. Er hægt að fjölga fleiri íbúum bæjarins?
„Ekki mikið, því miður. Við eigum takmarkað landrými en það eru ný hverfi að fara að rísa í efri byggðum Kópavogs, þá erum við að skoða hvort og hvernig við getum sett Reykjanesbrautina í stokk, í samráði við ríkið og þannig byggt upp á því svæði.
Glaðheimasvæðið á eftir að úthluta en svo eru þéttingarverkefni framundan. Kópavogur sem næst stærsta sveitarfélag landsins ber vissulega ábyrgð og við verðum að byggja áfram til að mæta núverandi og væntri íbúðaþörf. Eðlilega sækist fólk í að búa hér. Það skil ég vel enda er hvergi betra að búa.
Þess þá heldur er mikilvægt að við hugum að frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Kársnesi en einnig atvinnuhúsnæði. Ég sé gríðarleg tækifæri með tengingu Fossvogsbrúar fyrir Kópavog að byggja upp fjölbreytt og skemmtilegt hverfi á Kársnesi sem veitir ekki bara aukna þjónustu fyrir bæjarbúa heldur líka að við drögum íbúa úr nærliggjandi sveitarfélögum sem og ferðamenn til að sækja þjónustu til Kópavogs. Þá væri áhugavert fyrir okkur að tengjast betur háskólasamfélaginu. Þá nefni ég sérstaklega Háskólann í Reykjavík.
Kópavogur er bæjarfélag í fremstu röð og hér er eftirsóknarvert að búa. Verkefni okkar næstu ára verður að byggja upp samfélag sem mætir þörfum bæjarbúa.“