Stærðfræðikennarinn, afrekshlauparinn, Heiðursblikinn og formaður Sögufélags Kópavogs, Þórður Guðmundsson var í vikunni útnefndur Eldhugi Kópavogs. Heiðurinn hlýtur hann fyrir ötul störf sín í félagsmálum og frumkvöðlastarf Sögufélagsins.
Fyrstu fimm ár ævinnar ólst Þórður upp í hinu margfræga Unuhúsi við Garðarstræti 15 í Reykjavík. Foreldrar hans, Guðmundur Gíslason og Guðný Þórðardóttir, reistu hús að Vallargerði 6 árið 1950. Þórður var alinn upp við Vallargerðisvöllinn sem var fyrsti og eini fótboltavöllur í Kópavogi um árabil. Skiljanlega hafði það mikil áhrif á áhuga hans á íþróttum, sem beindist í fyrstu einkum að fótbolta.
Hann var virkur félagi í Ungmennafélaginu Breiðablik, fyrst í fótbolta og síðar í frjálsum íþróttum. Hann sigraði í 1500 metra hlaupi á tveimur Landsmótum UMFÍ og var um tíma í landslið Íslands í hlaupum. Þórður sat í um 30 ár í stjórn Frjálsíþróttadeildar Breiðabliks og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Árið 2000 hlaut hann æðstu viðurkenningu Breiðabliks: „Heiðursbliki.“ Árið 2005 hlaut hann gullmerki ÍSÍ og félagsmálaskjöld UMSK. Þórður starfaði sem stærðfræðikennari við Víghólsskóla og Digranesskóla í 35 ár. Síðustu árin hefur Sögufélag Kópavogs átt hug hans allan en hann endurreisti það félag ásamt Frímanni Inga Helgasyni árið 2011.
Í þakkarræðu sinni sagðist Þórður taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd Sögufélags Kópavogs þar sem félagsmenn hafa unnið ötult og óeigingjarnt starf við að hlúa að og varðveita sögu bæjarins.