Þórir Bergsson var kjörinn formaður knattspyrnudeildar HK á aðalfundi deildarinnar. Hann tekur við af Þorsteini Hallgrímssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Baldur Már Bragason var kjörinn varaformaður deildarinnar og með þeim í stjórn voru kjörin þau Kristín Guðmundsdóttir, Sigvaldi Einarsson og Halldór Valdimarsson en Halldór, sem áður var formaður deildarinnar, kemur nú til starfa á ný eftir nokkurra ára hlé.
Baldur Már hætti jafnframt sem formaður Barna- og unglingaráðs og Valgerður María Gunnarsdóttir var kjörin formaður ráðsins í hans stað.
Þórir Bergsson er fimmtugur Kópavogsbúi, einn af stofnendum ÍK og lék þar með yngri flokkum og meistaraflokki, og þjálfaði yngri flokka félagsins um langt árabil. Hann þjálfaði síðan yngri flokka hjá HK í mörg ár, ásamt því að þjálfa meistaraflokkinn hluta úr tímabilinu 1998. Þórir hefur gegnt formennsku í meistaraflokksráði karla síðustu árin.