Efsta liðið í fjórða flokki a-liða karla í knattspyrnu, Þór Akureyri, sótti Blikana heim á Fífuvöllinn í dag. Jafnræði var með liðunum lengst af og var jafnt í hálfleik. Um miðbik fyrri hálfleiks náðu Þórsarar yfirhöndinni eftir góða sókn, þvert gegn gangi leiksins því Blikar höfðu átt mörg dauðafæri fram að því og áttu inni víti hjá dómaranum.
1:0 og útlit fyrir að Þórsararnir stælu stigunum.
En Blikarnir gáfust ekki upp og héldu áfram að sækja. Nokkrum mínutum fyrir lok leiksins fékk Bjarki Freyr boltann rétt við vítateig, snéri af sér varnarmann og dúndraði boltanum í hornið fjær, stöngin inn, algjörlega óverjandi.
Blikarnir sitja nú í 9. sæti, með tvo leiki til góða á efstu lið í A riðli A liða íslandsmótsins eftir 6 leiki. Næsti leikur liðsins er gegn ÍBV miðvikudaginn 17. júlí.
Að loknum leik A-liða áttust við B-lið Breiðabliks og Þórs. Þar var heldur meira skorað en hjá A-liðunum. Eftir fyrri hálfleik var staðan 1-3 fyrir Þórsara – og útlitið allt annað en bjart fyrir Blikadrengi. En Blikar gyrtu sig í brók og komu tvíelfdir til leiks í seinni hálfleik. Eftir að 10 mínútur voru liðanar af seinni hálfleik var staðan orðin 2-3 og Blikar
farnir að pressa Þórsarana hátt upp á vellinum. Það skilaði þeim þriðja markinu ekki löngu seinna. Þegar um 30 sekúndur lifðu leiks, skoruðu Blikadrengir fjórða markið og unnu leikinn 4-3. Sigurgleði Blika var gríðarleg, á meðan Þórsarar sátu eftir á vellinum með sárt ennið.
Breiðablik B1 situr nú í 3. sæti, með einn leiki til góða á efsta lið í A riðli B liða íslandsmótsins eftir 5 leiki. Næsti leikur liðsins er gegn ÍBV miðvikudaginn 17. júlí.
Eftir næsta leik hjá þessum liðum verður gert hlé á keppni í Íslandsmótinu til 9. ágúst. Á meðan ætlar eldra ár 4.flokks Breiðabliks að leggja land undir fót og halda til Danmerkur á Danacup, sem er eitt stærsta ungmennamót í knattspyrnu sem haldið er í heiminum. Þetta er 32. árið sem þetta mót er haldið og taka 921 lið frá 44 löndum þátt í þessu móti. Keppt er í aldursflokkum 12-19 ára hjá bæði stelpum og strákum . Breiðablik hefur sent lið á þetta mót undanfarin 6 ár undir stjórn Júlíusar Ármanns Júlíussonar þjálfara, sem farið hefur í öll skiptin – og hefur gengi Blika verið með miklum ágætum. Á þessum 6 árum hafa Blikar átt lið einu sinni í 8 liða úrslitum – fjórum sinnum í 16 liða úrslitum. Í ár fer Breiðablik með 4 lið af 99 árgangi á mótið og eru Blikadrengirnir alls 55. Líkt og undanfarin ár eiga Blikar flest lið í 14 ára flokki drengja á þessu móti, þar sem aðrir klúbbar senda yfirleitt bara eitt árgangslið á Danacup. Mótið stendur yfir frá 22. til 27. júlí (nánari upplýsingar: www.danacup.com)