
Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK, sem bauð sig fram gegn Ármanni Kr. Ólafssyni, í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri í Kópavogi, hefur ekki gefið upp hvort hún hyggist þiggja sæti á lista flokksins fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Margrét hlaut um 35% atkvæða í fyrsta sætið og rúmlega 1500 atkvæði alls sem gera 55% atkvæða. Hjá innanbúðarmönnum í Sjálfstæðisflokknum þykir það ansi gott þar sem um mótframboð var að ræða gegn sitjandi forystumanni listans og bæjarstjóra. Auk þess var um nýtt framboð að ræða þar sem Margrét hafði aldrei áður gefið kost á sér.
Margrét hefur verið undir feldi með ákvörðun sína. Samkvæmt heimildum Kópavogsfrétta hafa æðstu valdamenn Sjálfstæðisflokksins, auk almennra flokksmanna og bæjarbúa, lagt hart að henni að hún þiggi annað sætið á lista flokksins enda er talið að hún muni breikka kjósendahópinn og styrkja stöðu Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum.