Tilfinningaþrunginn íbúafundur um flutning bæjarskrifstofa

Til snarpra orðaskipta kom á íbúafundi í síðustu viku um flutning bæjarskrifstofunnar. Segja má að skilin hafi orðið skörp á milli þeirra sem eldri eru og þeirra sem eru yngri; þeirra sem vilja vernda sögu og hefðir og þeirra sem kalla eftir hagræðingu og betra flæði á milli starfsdeilda. Engum hefur dulist undanfarið að flutningur bæjarskrifstofunnar úr Fannborg hefur verið pólitískt sprengjuefni í bænum og deildar meiningar eru um það innan flokka í bæjarstjórn.

Fulltrúar frá Capacent og Mannvit sátu fyrir svörum ásamt bæjarstjóra.
Fulltrúar frá Capacent og Mannvit sátu fyrir svörum ásamt bæjarstjóra.

Á íbúafundi í Salnum í síðustu viku var farið yfir skýrslur frá Mannvit og Capacent um mögulega flutning bæjarskrifstofanna. Fundargestir í Salnum voru um 140 talsins og virtust flestir þeirra sem tóku til máls langt frá því vera sáttir um að flytja bæjarskrifstofurnar. Sumir töluðu að um hreinan áróðursfund væri að ræða. Engu væri líkara en verið væri að kynna ákvörðun sem búið væri að taka. Sjónarmiðin voru æði mörg og hér verður gerð tilraun til að stikla á stóru á því sem fram fór á fundinum.

Nokkur rök sem mæla með flutningi bæjarskrifstofa:

– Bæjarskrifstofurnar í Fannborg eru í þremur húsum, á samtals átta hæðum

– Lélegt vinnuflæði er á milli deilda og nýtingin á húsnæðinu er mjög léleg

– Ekkert viðhald hefur verið á bæjarskrifstofunum í 6-7 ár

– Þær eru farnar að mígleka og mygla er farin að gera vart við sig

– Varlega áætlað nemur kostnaðaráætlun endurbóta um 600 milljónir

– Bindandi tilboð er komið í  húsnæðið upp á 700 milljónir

– Hægt er að selja byggingareiti í Fannborg fyrir um 600 milljónir

– Þetta réttlætir kaup á nýju húsnæði undir

skrifstofurnar, í Norðurturni Smáralindar, upp á 1,5 milljarð.

Nokkur rök sem mæla gegn flutningi bæjarskrifstofa:

– Það kostar engar 600 milljónir að gera við Fannborg, sá kostnaður er gróflega ofmetinn

– Spurningamerki við alla tölulega framsetningu

– Eru byggingareitir eftir í Fannborg til að selja? Fæst það verð sem lagt er upp með?

– Engin samstaða er um málið innan bæjarstjórnar

– Festa og sagnfræðileg heild í því að binda söguna við upprunann og hafa bæjarskrifstofurnar áfram á þeim stað þar sem þær voru fyrst

– Nágrannasveitarfélög eru með sína stjórnsýslu miðsvæðis og flytja hana ekki í burtu

– „Eins og að flytja Alþingi í Kringluna.“

Bæjarstjóri trúði ekki hversu illa var komið fyrir Fannborg

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri

Í inngangsræði sinni rakti Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, meðal annars ástæður þess af hverju hann teldi það vera rökrétt að flytja. „Viðhaldsþörfin er mikil….Ég trúði ekki í fyrstu hversu illa var fyrir komið fyrir á fjórðu hæð Fannborgar. Við leituðum til hlutlausra verktaka og fengum hjá þeim ráðgjöf. Þeir mátu að það myndi kosta 200 milljónir að gera við. Síðan það mat var gert hefur vísitala hækkað og ef við metum kostnað við flutninga og annað sem þessu fylgir þá er þetta nær 300 milljónum núna,“ sagði Ármann og bætti við að leitað hafi verið til Mannvits sem komst að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast væri að flytja bæjarskrifstofurnar. Í kjölfarið var skipaður starfshópur bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins. Fannborgin var þá auglýst og hugmyndir ræddar um nýtingu svæðisins.

Úttekt Mannvits
Einar Ragnarsson, Jón Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Hilmarsson hjá Mannvit unnu úttekt um kosti og galla við flutninga frá Fannborg. Í máli Einars kom meðal annars fram að samtals væru bæjarskrifstofurnar 4.710 fermetrar. Það gera 31,8 fermeter fyrir hverja starfsstöð. Útreikningarnir voru dregnir í efa af fundargesti sem sagði reikningsskekkju vera upp á 1.550 fermetra í skýrslu Mannvits. Rýmisþörf væri því mun minni og myndi breyta öllu reikningsdæminu, útreikningum og tölum sem hafa verið nefndar. Jón Þór Gunnarsson hjá Mannvit sagði að allt hefði verið rýnt í þaula hjá fyrirtækinu en hann myndi fara aftur yfir þetta. Einar Ragnarsson hjá Mannvit ítrekaði þó að hægt væri að vera með 30% minna skrifstofuhúsnæði og ná þannig fram sparnaði með því að nýta fermetrana betur. Þannig mætti lækka rekstrarkostnað til lengri tíma. Óbeini ábatinn væri bætt vinnuaðstaða; meiri ánægja í starfi, ein sameiginleg móttaka sem myndi gera þjónustu við íbúa markviss-ari, bætt aðgengi fatlaðra og böð og búningaaðstaða fyrir starfsfólk. „Þrátt fyrir að kaupverð nýs húsnæðis sé hærra en söluverð Fannborgar og byggingarréttar þá vega aðrir þættir þyngra, eins og til að mynda 150 milljóna króna lægri rekstrarkostnaður á ári og sparnaður í endurbótum á Fannborg sem talinn er nema um 600 milljónum á næstu 6 árum,“ sagði Einar og bætti því við að þétting byggðar á Fannborgarreit myndi auka framboð íbúðarhúsnæðis. Aukið útsvar gæti veitt bænum um 100 milljónir á ári í auknar tekjur.

Rýnivinna íbúa
Hólmfríður Árnadóttir hjá Capacent kynnti rýnivinnu íbúa bæjarins. Gert var 290 manna tilviljunarúrtak á aldrinum 18-75 ára. 24 íbúar, 12 karlar og 12 konur, voru fengin í rýnivinnuna. Niðurstaða hópsins var meðal annars að núverandi aðstaða í Fannborg væri óviðunandi og að þjónusta myndi eflast við að flytja bæjarskrifstofurnar. Betra aðgengi yrði þá fyrir fatlaða, flutningar hefðu jákvæð áhrif á starfsfólk og starfsanda og myndu skila sér í aukinni skilvirkni. Nefnt var í rýnihópnum að Fannborg væri ekki lengur miðsvæðis í Kópavogi og væri það ekki fyrir flesta íbúa bæjarins. Af þeim sem tóku afstöðu í rýnihópnum var afgerandi meirihluti fyrir því að flytja.

Óvissa að byggja nýtt
Ármann var spurður af hverju búið væri að ýta út af borðinu hugmynd um að deiliskipuleggja Fannborgarreitin upp á nýtt og byggja þar nýtt ráðhús bæjarins. Hann svaraði að óvissuþættir í því væru of margir. Spenna væri komin á vinnumarkað, laun færu hækkandi og ekki væri þess virði að taka þá áhættu. „Það tekur að jafnaði 3-5 ár að byggja. Byggingarkostnaður getur aukist á þeim tíma. Við skulum minnast þess að 70% af byggingum hins opinbera fara fram úr áætlunum. Það er minni óvissa að kaupa nýtt húsnæði og fá afhent, allt tilbúið,“ sagði Ármann.

Söguleg staða gleymist
Guðmundur Oddsson, sem var bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Kópavogi til marga ára, sagðist vera gáttaður að heyra þessa framsetningu. „Eruð þið með of mikið af húsnæði? Þá bara seljið þið eitt húsið,“ sagði Guðmundur og bætti því við að hin sögulega staða stjórnsýslunnar í Kópavogi hefði gleymst í þessari umræðu. „Það er algjörlega fáránlegt að fara með stjórnsýslu bæjarins í einhverja sjoppu. Það gengur ekki upp,“ sagði Guðmundur og uppskar lófaklapp fundargesta. Einar Ragnarsson hjá Mannvit ítrekaði að stórir hlutar núverandi aðstöðu í Fannborg, eins og gangar og kaffiaðstaða nýtast illa. Það væri meiri hagkvæmni að flytja. „Varðandi kostnað þá er veruleg áhætta fólgin í því að hefja endurbætur á Fannborg sem vinda síðan auðveldlega upp á sig þegar ný og ný viðhaldsverkefni koma í ljós.“ Ármann bætti því við að stjórnsýslan í Fannborg væri í þremur húsum og á átta hæðum. „Sjálfum finnst mér þetta yndislegur staður og þykir vænt um Hamraborgina. Ég horfi á þetta út frá vinnuflæði  mismunandi sviða og deilda þar sem þjónusta við bæjarbúa verður betri. Ef það verður niðurstaðan í bæjarstjórn að vera áfram í Fannborg þá ætla ég ekki að gráta það,“ sagði Ármann og bætti því við að það væri í lýðheilsustefnu bæjarins að hvetja starfsmenn til að ganga og hjóla í vinnu og sjálfsagt að koma til móts við þarfir þess um búninga- og sturtuaðstöðu.

„Peningalegt rugl og glæfraspil.“

Kristján Guðmundssom, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.
Kristján Guðmundssom, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.

Kristján Guðmundsson, sem var bæjarstjóri Kópavogs árin 1982 til 1990, kvaddi sér hljóðs og hélt tilfinningaþrungna ræðu. „Það voru fengnir 24 íbúar í rýnivinnu fyrir alla íbúa bæjarins sem telja yfir 30 þúsund manns. Það er lítið hlutfall og getur varla talist áreiðanlegt,“ sagði Kristján. „Það er engin samstaða innan bæjarstjórnar fyrir þessu máli og enginn meirihluti. Ég minnist þess ekki að bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar leiði andstæðar fylkingar í sama málinu. Björt framtíð er líka klofin. Þetta er pattstaða. Öll saga og hefðir Kópavogs eru sprottin upp frá þessu svæði. Þetta er peningalegt rugl, glæfrarspil og loftfimleikar miðað við núverandi aðstæður. Sveitarfélagið má ekki við þessu núna, þar sem það er nú þegar við 150% skuldamörkin og þarf að lúta handleiðslu í fjármálum. Verðið á Norðurturni er 470 þúsund á fermeter þegar við vitum að hægt er að fá um 200 þúsund á fermeter í öðru húsnæði. Ég minni á að öll nágrannasveitarfélög eru með miðbæjarkjarna með ráðhús. Það er eins og ráðgjafar bæjarstjórnar hafi ekki komið áður í Kópavog. Norðurturn er á jaðri byggðar Kópavogs við Garðabæ og langfæstir fara þangað gangandi,“ sagði Kristján og bætti þessu við: „Um langan tíma var Gunnar Birgisson hér ráðandi. Hann sagði mér að hann hefði skoðað flutning bæjarskrifstofa með embættismönnum árin 2004 og 5. Þetta datt fljótlega út af borðinu því það var engin glóra í þessu. Það kostar bara 250 milljónir að laga Fannborg en 600 milljónir hafa þegar farið í jarðhæðina.“
Ármann Kr. Ólafsson svaraði forvera sínum í embætti og sagði þetta gott dæmi um jarðhæðina sem fór langt fram úr áætlun. Framkvæmdir þar áttu að kosta 330 milljónir að núvirði en endaði í 540 milljónum. „Semsagt, bara jarðhæðin kostaði þetta. Nú er kominn tími á endurbætur á annarri og þriðju hæð. Loftræstingarkerfið, lagnir og fleira er komið á tíma. Áætlaður viðgerðarkostnaður í allt þetta er 600 milljónir. Þá á eftir að taka húsið í gegn að utan auk matsals og sturtuaðstöðu. Áætluð viðgerð á Héraðsskjalasafni var 55 milljónir en sú tala endaði í 116 milljónum. Það er búið að leggja mikið undir að fá sjónarmið íbúa og ég efast um að nokkurt mál hafi verið undirbúið jafn vel. Ég geri enga athugasemd við að ekki séu allir bæjarfulltrúar sammála í þessu máli. Það eru mismunandi sjónarmið sem trufla mig ekki…Þetta er alls ekki pólitískt mál heldur erum við frekar að tala hér um vinnustað stjórnsýslunnar. Fjölmennið sækir í Smárann, það sýna tölur verslana á svæðinu.“

„Ráðhús á að vera á þeim stað þar sem það var byggt fyrst.“

Þóra Elfa Björnsson spurði hvort taka ætti lán fyrir þessum flutningum og hvort lagt yrði til hliðar fyrir viðhaldsframkvæmdum sem yrðu í framtíðinni. Ármann svaraði því til að hann gerði ráð fyrir að bærinn fengi strax greitt fyrir Fannborg af kaupanda, sem yrði um 700 milljónir. Komið hefði fram tilboð í húsið upp á þá upphæð sem rennur út um næstu mánaðarmót. Afgangurinn yrði fjármagnaður með lausafé bæjarins. „Við myndum kaupa tilbúið húsnæði þar sem innréttingar væru inni í kaup-verðinu. Kaupum allt á X verði en óvissuþættirnir yrðu minni ef farið yrði út í að byggja nýtt.“ Benjamín Magnússon, arkitekt, kvaddi sér hljóðs og vildi halda í hefðirnar. „Ráðhús á að vera á þeim stað þar sem það var byggt fyrst. Það er festa í því og ákveðin sagnfræði sem bindir söguna við upprunann. Þetta er hægt að sjá í löndunum í kringum okkur og víða í Evrópu.“

„Kópavogur er hér“

Rannveig Guðmundsdóttir
Rannveig Guðmundsdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi ráðherra og bæjarfulltrúi í Kópavogi til margra ára, steig í pontu og sagði bæjarskrifstofurnar vera pólitíska ásýnd bæjarins. „Gerði þið ykkur grein fyrir hversu mikið þessi fundur virkar áróðurskenndur,“ spurði hún fundargesti. „Allt sem hér er sagt er eins og þegar sé búið að taka ákvörðun. Mér finnst þetta óþægileg umræða eins og hún er sett fram. Það vantar að sinna viðhaldi á stofnunum og nánast á hverju einasta heimili eftir hrun,“ sagði Rannveig og bætti þessu við: „Fyrir áratugum varð til sú framtíðarsýn að ásýnd Kópavogs væri hér. Kópavogur er hér. Nú er verið að þétta byggð og byggja í Auðbrekku, af hverju eru þá ekki skrifstofurnar hér áfram? Er það bara peningamál hvar bæjarskrifstofurnar eru?“
Ármann var til svara og sagði meðal annars að þetta væri langt frá því einungis peningamál, þetta snérist líka um hagræði og skilvirkni. „Ég get ekki hundsað viðhorf starfsfólks…það eru mörg rök sem mæla með flutningi. Það verður betra flæði á milli deilda sem skilar sér í betri þjónustu við bæjarbúa.“ Ármann var þá spurður hvað mælti gegn því að efna til íbúakosningar um flutning bæjarskrifstofanna. „Þetta mál er ekki þess eðlis…þetta er búið að vera í eitt ár í málsmeðferð hjá bæjarstjórn. Þetta er flóknara mál en svo að hægt sé að stilla þessu upp í íbúakosningu, sem einföldu staðsetningarmáli. Við erum kosin í bæjarstjórn til að taka ákvarðanir. Við erum að taka stórar ákvarðanir um milljarða framkvæmdir; um byggingu íþróttahúsa, skólabyggingar og fleira. Fyrir mig er þetta bara ein slík ákvörðun.“

Samþykktir bæjarstjórnar

Á fundi sínum 9. febrúar samþykkti bæjarstjórn þrjár tillögur frá Samfylkingu og VGF um húsnæði stjórnsýslu bæjarins:

1: „Bæjarstjórn samþykkir að fresta tillögu starfshóps um húsnæðismál stjórnsýslu Kópavogsbæjar. Jafnramt felur bæjarstjórn umhverfissviði Kópavogsbæjar að kanna kostnað við að byggja ráðhús sem verður hannað fyrir stjórnsýslu Kópavogsbæjar á lóð bæjarins sem er fyrir framan menningar- og tómstundarmiðstöðina Molann að Hábraut 2, gegnt Gerðarsafni og Salnum að Hamraborg 4 og 6.“

2: „Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að fram fari ítarleg athugun á kostum þess og göllum að nýta hús Kópavogshælis (nánar tiltekið, gamla Holdsveikraspítalann teiknaðann af Guðjóni Samúelssyni) sem fundarsal bæjarstjórnar og móttökurými Kópavogsbæjar, auk mögulegrar aðstöðu fyrir bæjarfulltrúa eða aðra starfsemi.“

3: „Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að komi til sölu á eignum og/eða byggingarétti á Fannborgarreit að neðangreint verði sett í forgang:

-Samstarf við byggingarsamvinnufélög sem bjóða minni íbúðir á hagstæðu verði fyrir fólk sem er að kaupa sitt fyrsta húsnæði

-Samstarf við leigufélög sem vilja bjóða upp á minni og ódýrari íbúðir á leigumarkaði

-Bygging félagslegra íbúða 40 af hundraði þess byggingarréttar/seldra eigna skal varið í samræmi við ofangreinda kosti.“

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Grindvíkingar í Kópavogsbúið

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur lykla að íbúðum í gamla Kópavogsbúinu við hátíðlega viðhöfn miðvikudaginn 10. júlí en íbúðirnar verða til afnota fyrir eldra fólk úr

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Ert þú í tengslum?

Aðsent Ert þú í tengslum? Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra. Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi og rannsóknir sýna að til mikils er að vinna

Pikka upp dósir í Kópavogi

Nú geta íbúar Kópavogs sem vilja styrkja iðkendur íþróttafélaga með dósapening skráð sig á Pikka.is og látið iðkendur koma eftir pöntun að sækja hjá sér dósirnar. Hér áður fyrr var það algengt

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð