Tillaga að nýju aðalskipulagi Kópavogs.


Inni á vef Kópavogsbæjar hefur nú verið birt tillaga að nýju Aðalskipulagi bæjarins fyrir árin 2012 til 2024. Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega til skipulags- og byggingardeildar í Fannborg 6, 200 Kópavogi, eða á netfangið: adalskipulag@kopavogur.is eigi síðar en kl. 15:00 föstudaginn 20. september 2013.  Hver sá sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er hvattur til að kynna sér tillöguna.

Kópavogur.
Í aðalskipulaginu er sett fram stefna bæjaryfirvalda um þróun bæjarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Samkvæmt lögum er gildistími aðalskipulags minnst 12 ár.

Vinna við endurskoðun aðalskipulagsins hefur staðið yfir í um fjögur ár og hefur sú vinna verið á höndum umhverfissviðs Kópavogs, skipulagsnefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Auk þess voru haldnir íbúafundir í hverfum Kópavogs, þar sem hægt var að koma á framfæri ábendingum og tillögum. Voru þeir haldnir undir yfirskriftinni „Í þannig bæ vil ég búa“.

Á meðal helstu tillagna má nefna að gert er ráð fyrir breyttri landnýtingu við Kópavogshöfn þar sem vannýtt athafnahúsnæði á að víkja fyrir 550 íbúðum. Liður í þessum áformum er að liðka fyrir umferð með bættum vegtengingum og byggja brú yfir Fossvog fyrir gangandi og hjólandi umferð. Auk þess má nefna áform um bryggjuhverfi við Fossvog þar sem fyrir liggur deiliskipulag um
392 íbúðir. Á fyrri hluta skipulagstímans er reiknað með að uppbygging Kópavogstúns verði lokið í samræmi við
samþykkt deiliskipulag. Eftir á það byggja um 80 íbúðir og 70 þjónustuíbúðir samkvæmt samþykktu deiliskipulagi. Eftir á að byggja um 300 íbúðir við Lund og Auðbrekku. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð á Auðbrekkusvæðinu með allt að 160 íbúðum.

Nánar má fræðast um tillögu að aðalskipulaginu inni á vef Kópavogsbæjar. Hlekkurinn er:

http://www.kopavogur.is/thjonusta/umhverfi-og-skipulag/skipulagsmal/endurskodun-adalskipulags-og-stadardagskrar-21/