Tímabært að stofna fleiri hljómsveitir undir merkjum Skólahljómsveitar Kópavogs

Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs.
Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs.

Þegar innritað var í Skólahljómsveit Kópavogs í vor kom í ljós að einungis var hægt að taka inn þriðjung þeirra barna sem sóttu um að komast í tónlistarnám hjá hljómsveitinni. Skólahljómsveit Kópavogs býr við þröngan kost og vísa þarf nemendum frá vegna takmarkaðra kennsluplássa. Einungis er pláss fyrir 160 nemendur, ár hvert, og  um 30 nýir nemendur komast að á hverju ári. Aðsóknin er gríðarleg og segir Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs, að timabært sé að stofna fleiri hljómsveitir undir merkjum Skólahljómsveitarinnar í Kópavogi. „Það væri ekki óeðlilegt, miðað við íbúafjölda Kópavogs í dag, að hér væru starfræktar tvær til þrjár skólahljómsveitir fyrir yngstu börnin. Ein hugsanlega í Kórnum, önnur í Digranesi og sú þriðja kannski á Kársnesi. Árið 1970 bjuggu 10 þúsund manns í Kópavogi og þá voru 100 börn í Skólahljómsveitinni. Samkvæmt þessu þá má gera ráð fyrir að það sé þörf fyrir 320 manna sveit þegar fjöldi íbúa í bænum er kominn upp í 32 þúsund. En þetta kostar allt peninga og við höfum hvorki fjármagn né viðunandi húsnæði til að gera þetta. Það er því engin lausn í sjónmáli og mér finnst alltaf jafn ömurlegt  að þurfa að vísa börnum frá sem sækja um að komast í Skólahljómsveitina því ég veit að þetta nám gerir þeim rosalega gott,“ segir Össur, sem sjálfur sótti um að komast í hljómsveitina aðeins tíu ára gamall og komst að.

25 ára starfsafmæli
Össur fagnaði í vor 25 ára starfsafmæli sínu hjá hljómsveitinni með hátíðartónleikum í Salnum en hann hefur starfað sem stjórnandi sveitarinnar síðustu 20 árin. „Fyrstu fimm árin var ég óbreyttur kennari, nýkominn frá djassnámi frá FÍH og með próf frá Berklee í Boston í djasstónsmíðum og útsetningum. Þá var sveitinni stýrt af Birni Á. Guðjónssyni, heitnum, sem margir landsmenn muna eftir, en hann stofnaði Skólahljómsveit Kópavogs haustið 1966 og vann ótrúlegt brautryðjendastarf.“

Frá æfingu Skólahljómsveitar Kópavogs á dögunum.
Frá æfingu Skólahljómsveitar Kópavogs á dögunum.

Árið 1993 tók Össur við sem stjórnandi en nú starfa 17 tónlistarkennarar hjá Skólahljómsveitinni sem kenna krökkunum á hljóðfærin og tónfræði allt þar til þau klára 10. bekk grunnskólans og útskrifast þá jafnframt frá Skólahljómsveitinni. „Það hefur margoft sýnt sig að allt tónlistarnám bætir námsárangur í grunnskóla. Krakkarnir verða markvissari í sínu námi, þau læra að vinna saman að sínum markmiðum og tileinka sér fullt af gildum sem fylgja þeim inn í lífið auk þess sem þetta er mikið félagslíf og skemmtilegt,“ segir Össur sem útsetur mörg lög sveitarinnar en þau vekja alltaf athygli.

Stuðmenn og Þursarnir
„Við vorum með á síðustu tónleikum lög eftir Stuðmenn, Spilverk Þjóðanna, Þursaflokkinn og Jakob Frímann Magnússon. Krakkarnir víkka út tónlistarþekkinguna með þessu og fara allt í einu að hlusta á Þursana, en mörg þeirra höfðu aldrei áður heyrt í þeim áður. Við tókum líka lög eftir Magga Eiríks, Sigfús Halldórsson og fleiri. Það er virkilega gaman að sjá hvað krakkarnir eru opin fyrir þessu og spilagleði þeirra skilar sér alltaf til áhorfenda,“ segir Össur. Síðustu mánuðir hafa verið annasamir, rétt eins og venjulega, því yngri sveitirnar fóru á landsmót til Grindavíkur  og Stykkishólms og léku víða. „Krakkarnir eru að standa sig vel og þau eru öll flottir hljóðfæraleikarar. Þess má líka geta að umstangið í kringum allt þetta væri líklega ekki hægt án öflugs foreldrafélags, sem fagnar einmitt 20 ára afmæli sínu nú um þessar mundir. Það hefur alltaf verið ótrúlegur kraftur í sjálfboðaliðum í kringum okkur og ber að þakka fyrir það,“ segir Össur.

Hvað færðu út úr þessu starfi?
„Skemmda heyrn og ónýtt bak,“ segir Össur og hlær. „Nei, í alvöru talað, þetta er gríðarlega krefjandi en jafnframt gefandi starf. Það gefur mér mikið að sjá krakkana vaxa og dafna í því sem þau eru að gera. Gleði þeirra og húmor smita út frá sér. Oft er þetta erfitt en afraksturinn er alltaf þess virði,“ segir Össur Geirsson, stjórnandi Skólahljómsveitar Kópavogs.

WP_20140505_17_09_38_Pro__highres

Sjá nánar: www.skolahljomsveit.kopavogur.is

 

Umræðan

Fleiri fréttir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á