Molinn ungmennahús stóð fyrir tveimur viðburðum á Safnanótt í ár. Kvöldið var opnað með glæsilegri tískusýningu frá Særósu Mist þar sem hún frumsýndi sína þriðju fatalínu Collection Ladies. Innblástur fatalínunnar kemur frá klassískum klæðnaði kvenna fyrr á tíðum, fáguðum, kvenlegum og rómantískum dömum, en þó í nútíma útgáfu. Tískusýningin var krydduð upp með áhugaverðum dansi sem tengdi saman listformin dans og fatahönnun. Útkoman varð hreint út sagt ótrúlegt sjónarspil. Kraftmikil og lifandi tískusýning sem vakti mikla athygli.
Að lokinni tískusýningunni opnuðu ungir listamenn og hönnuðir viðburðinn HÖNNLISTÍZK. Þar gafst gestum og gangandi tækifæri á að skoða og versla ýmsa hönnun og listmuni hjá ungmennunum. Alls voru 10 hönnuðir og listamenn sem sýndu afurðir sínar. Þar mátti meðal annars sjá fjölbreytta og glæsilega flóru af fatahönnun, grafíkverkum, skartgripum og ljósmyndum frá aðilum á borð við Made by Ally, Frost and Feather, 104 Slaufur, Maríur, Skrítin, Berg Design og fleirum.