Gunnar Kr. Sigurjónsson er titlaður útlitshönnuður í símaskránni. Það er kannski full hógvært og nær ekki yfir þann aragrúa verkefna og starfa sem Gunnar sinnir. Hann hefur í mörg ár haft töfrabrögð að áhugamáli og jafnframt komið fram með hljómsveitinni PRIMA þar sem hann leikur á hljómborð og syngur. Þá lagði hann einnig stund á klíníska dáleiðslu. Margir Kópavogsbúar þekkja Gunnar frá því hann gaf út Kópavogspóstinn á árum áður. Hans aðalstarf í dag er þó útlitshönnun, bókaumbrot fyrir bókaútgáfuna Hóla; gerð auglýsinga og uppsetning á tímaritum og vefsíðum, svo dæmi séu tekin. „Ég reyni að starfa við það sem mér finnst gaman að gera, svo framarlega sem hægt er að lifa af því,“ segir Gunnar. Hann lærði útlitshönnun í Danmörku á níunda áratug síðustu aldar, starfaði við skiltagerð, merkingar og auglýsingar þegar heim var komið og sá um uppsetningu á Kópavogspóstinum í lausamennsku, áður en hann tók við útgáfunni, fram til ársins 2007. En hvernig varð hann töframaður? „Ég sá töframann í sjónvarpinu þegar ég var níu ára og heillaðist. Ég ákvað þá og þegar að þetta vildi ég geta gert. Pabbi keypti svo töfrasett í Englandi, sem ég fékk í jólagjöf, en þetta var á þeim árum þegar fólk ferðaðist minna en í dag. Ég æfði mig mjög mikið og kom fram í skólanum og meira að segja í Stundinni okkar í sjónvarpinu. Töframaðurinn hefur alltaf blundað innra með mér en ég hef ekki alltaf haft tíma, í amstri lífsins, til að sinna töfrunum. Þangað til nú á síðustu árum að ég hef verið duglegri við þetta.“
Hagsmunafélag töframanna
Gunnar kom að stofnun Hins íslenska töframannagildis árið 2007 sem er hagsmunafélag töframanna hér á landi. „Við vorum tólf sem stofnuðum félagið, þar á meðal Baldur Brjánsson og einnig Jón Aðalbjörn Bjarnason, betur þekktur sem Jón ljósmyndari sem rak Ljósmyndastofu Kópavogs í mörg ár. Núna erum við yfir tuttugu í félaginu, þar af tvær konur. Þetta er hagsmunafélag fyrir töframenn þar sem þeir geta hist og borið saman bækur og töfra sína. Félagið stendur fyrir námskeiðum og svo sýningum einu sinni á ári sem oftast hafa verið í Salnum í Kópavogi. Sú næsta verður einmitt þar miðvikudaginn 19 október. Gildið er aðili að International Brotherhood of Magicians, IBM, sem eru stærstu töframannasamtök í heimi. Í fyrra varð ég einnig félagi í The Magic Circle, fyrstur Íslendinga, sem eru ævagömul og virt töframannasamtök í Englandi. Þar þurfa allir að þreyta inntökupróf til að komast inn, til að sanna þekkingu sína og getu í töfrabrögðum. Þangað sæki ég námskeið í töfrabrögðum bæði í Lundúnum og eins í gegnum netið og hef kynnst aragrúa af fólki úr þessum skemmtilega, skapandi heimi.“
Tekur þátt í alþjóðlegri listahátíð
Marga dreymir sjálfsagt um að verða töframenn þegar þeir verða eldri. Gunnar segist fá mikið út úr því að fylgjast með viðbrögðum fólks sem viti ekki sitt rjúkandi ráð þegar það er töfrað upp úr skónum. Máli sínu til stuðnings dregur hann upp spilastokk þar sem við sitjum á kaffihúsi í Hamraborginni og á svipstundu hverfa og birtast spilin hingað og þangað í spilastokkunum og jafnvel óvænt í munni töframannsins. Undrunarsvipurinn leynir sér ekki hjá blaðamanni. „Það er þetta sem er svo gaman,“ segir Gunnar. „Ánægjan sem ég fæ út úr þessu er hrein gleði. Þetta er mjög gefandi og frískar upp á tilveruna. Upphaflega hugsaði ég þetta sem áhugamál en hin síðari ár hefur þetta undið upp á sig og nú er ég farinn að koma fram í afmælum, brúðkaupum og fleiri viðburðum. Á næstunni er ég á leið til Zürich í Sviss til að taka þátt í alþjóðlegri listahátíð sem heitir Manifesta. Þar mun ég koma fram ásamt ungri konu frá Hong Kong, sem er í námi við Listaháskóla Íslands. Hún skrifaði ritgerði sem fjallaði um viðbrögð áhorfenda við töfrabrögðum og við kynntumst í tengslum við það. Ég mun koma fram með henni og sýna atriði sem heitir „Listamaðurinn hverfur.“
Dáleiðsla
Gunnar hefur einnig lagt stund á dáleiðslu, en vill sem minnst gera úr því. „Hjá mér er dáleiðsla fyrst og fremst hliðargrein við töfrabrögðin. Ég hef þjálfað mig í að nota bæði dáleiðslu og töfrabrögð saman og hef farið á námskeið í Englandi einmitt til þess. Til að auka við þekkinguna lærði ég síðar klíníska dáleiðslu hér heima en vegna annarra verkefna hef ég ekki haft tíma til að taka á móti fólki og meðhöndla. Aukin meðvitund fæst í dáleiðsluástandi en það er líka hægt að ná fram minnisleysi á ákveðna atburði og einnig vinna með eitthvað úr fortíðinni, sem ef til vill hefur valdið sársauka. Ég hafði áhuga á að læra þetta og komast að því um hvað dáleiðsla snerist og sé ekki eftir því.“
Hljómsveitin PRIMA
Þar með er ekki öll sagan sögð af skapandi verkefnum Gunnars því hann er einnig í tveggja manna hljómsveitinni PRIMA sem kemur víða fram og spilar og leikur fyrir dansi. „Við erum tveir í hljómsveitinni, ég og Guðmundur Pálsson. Hann spilar á gítar og syngur og ég leik á hljómborð og sé um milliraddir. Við spilum fjölbreytta tónlist, allt frá gömlu dönsunum til popps og rokks, sem fólk hefur áhuga á og finnst skemmtilegt. Flest eru þetta íslensk dægurlög sem fólk getur sungið með og dansað við. Við komum fram í samkvæmum, þorrablótum, afmælum og brúðkaupum. Um jólin skiptum við svo um föt og köllum okkur Fjörkarla og komum fram á jólaböllum. Stærsta ballið sem við höfum séð um ár eftir ár er jólaball Icelandair. Þar skemmtum við ungum sem öldnum. Þetta er alveg jafn gefandi og skemmtilegt eins og að koma fram sem töframaður.“
Kílóin fengu að fjúka
Gunnar er fráskilinn og er faðir þriggja stráka. Einhver bið varð á barnabörnum og árið 2014, þegar elsti sonurinn var að nálgast þrítugt, fékk Gunnar nóg af biðinni og fékk sér hund af Jack Russell tegund. Tígull heitir sá fjörugi kappi og fylgir Gunnari við hvert fótmál. „Tígull er eins og barnabarnið mitt og minn helsti trúnaðarvinur í dag. Hann hvetur mig líka til að hreyfa mig meira og fara út að ganga. Snemma á þessu ári ákvað ég að henda út öllum sykri úr mataræðinu eftir að hafa lesið rafbókina: Hættu að borða sykur. Ég var farinn að líta út eins og uppblásin blaðra. Ég henti nánast út kolvetnum, hveiti, pasta, brauði, kartöflum og hrísgrjónum og steinhætti í sykri. Fyrstu tvær vikurnar voru erfiðastar en núna eru 20 kíló farin og ekki ólíklegt að fleiri fjúki í kjölfarið. Það er að vísu hræðilegt hvað íslensk matvælafyrirtæki bæta sykri og þrúgusykri í nánast alla matvöru og ég undrast að engin stofnun skuli bremsa þetta af. Sú staðreynd að Mjólkursamsalan sé stærsti sykurinnflytjandi landsins er skelfileg. En ég fer núna út að ganga með hundinn og hlæ þegar ég geng framhjá sælgætishillunum í matvörubúðinni,“ segir Gunnar Kr. Sigurjónsson, útlitshönnuður, töframaður, dáleiðari og tónlistarmaður, léttur í spori.