Um þessar mundir gefst þér kostur á aðkomu að tveimur málum í gegnum lýðræðis- og samráðsvettvang Kópavogs: Fjárhagsáætlun ársins 2020 og innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Frá stofnun höfum við Píratar lagt mikla áherslu á gagnsæi í stjórnsýslu og mikilvægi þess að allar upplýsingar séu bæði aðgengilegar, auðfinnanlegar og stjórnkerfið sé sem opnast. Við trúum því að þú eigir sjálfgefinn rétt á aðkomu um öll málefni sem þig varðar og með því að nota tæknina er þetta nú auðveldara en nokkru sinni fyrr.
Á hverju hausti vinnur bæjarstjórn að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið á eftir en fram að þessu hafa bæjarbúar ekki fengið tækifæri til að hafa beina aðkomu að þeirri vinnu. Allir Kópavogsbúar sem eru fæddir árið 2006 og fyrr geta nú skráð sig inn á samráðgsátt í gegnum vef bæjarins, kopavogur.is, sent inn tillögur og tekið þátt í umræðum um þær hugmyndir sem þegar hafa borist. Við í bæjarstjórninni munum svo hafa þessar ábendingar til hliðsjónar í vinnu okkar við gerð fjárhagsáætlunarinnar.
Þá hefur einnig verið opnuð samráðsgátt um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, en Kópavogur er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að innleiða þau með formlegum hætti. Heimsmarkmiðin eru 17 markmið um ólíka þætti sem stuðla að sjálfbærri þróun. Þar er meðal annars fjallað um menntun, jafnrétti, samgöngur og loftslagsmál. Á samráðsgáttinni stendur íbúum til boða að koma á framfæri ábendingum um áherslur við innleiðingu á hverju markmiði fyrir sig.
Aukin völd og áhrif íbúa geta komið mikilvægum áherslum á framfæri og þannig líka er hægt að ráðstafa peningunum betur og sanngjarnar. Ég gleðst því yfir þessu aukna samráði og hvet þig til þess að fara inn á kopavogur.is og taka þátt!