Umhverfisvænna og manneskjuvænna nýtt ár

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG í suðvesturkjördæmi.

Um áramót lítum við flest um öxl og förum yfir hvað var gott á árinu og hvað var síðra. En með reynslu nýliðins árs í farteskinu er líka tilvalið að velta fyrir sér hvað við viljum sjá gerast á nýju ári. Mig langar að tæpa á tveimur málaflokkum sem mér standa nærri en það er þó ekki ótæmandi listi.

Ein af helstu samfélagslegu áskorunum árið 2019 og áranna fram undan eru umhverfismálin. Að við leggjumst öll á eitt til að sporna með öllum ráðum gegn helstu ógn nútímans; loftlagsbreytingum. Í þeim efnum eru næg verkefni. Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum sem umhverfisráðherra kynnti á haustþingi er fyrsta skrefið, ekki endastöð en afar mikilvæg verkfærakista. Nauðsynlegt er að verkfærunum sé fjölgað í þágu loftlags og umhverfisins og að stjórnvöld leiði þá vinnu og að við öll komum með í þá vegferð.  Ein af helstu áskorunum í loftlagsmálum er efling almenningssamgangna. Skriður mun loks komast á í þeim efnum á árinu 2019 með nýgerðu samkomulagi milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að tryggja fjármagn í undirbúningsvinnu fyrir Borgarlínu. Það er mikið fagnaðarefni og mun vonandi takast vel til. Samgönguáætlun verður lögð fram á árinu og rædd í þinginu. Afskaplega brýnt er hún verði með grænum formerkjum og í takti við skuldbindingar okkar í Parísarsamkomulaginu. Að sérstök almenningssamgangnastefna verði útbúin sem fyrst, eins og kveðið er á um í aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Stór verkefni í að sporna gegn loftlagsbreytingunum er að draga enn frekar úr útblæstri og mengun, að ríki og sveitafélög búi til hvata fyrir íbúa til að lifa umhverfisvænna lífi, að við drögum úr óþarfa neyslu, minnkum kjötneyslu, að skipulagsmálin sem snerta skipulagsvald sveitarfélaganna sé með umhverfisvænum áherslum og grænni sýn sem hlýtur að vera spennandi áskorun fyrir stækkandi sveitafélag á borð við Kópavog.

Í þessu getum við öll haft áhrif og vonandi séð árangur. Okkur, framtíðarkynslóðum og náttúrunni til heilla á næsta ári og á næstu árum.

Undir lok árs vorum við minnt rækilega á að við erum ennþá stödd í úrvinnslu #metoo-byltingarinnar sem náði hámarki fyrir rúmu ári. Í þeirri úrvinnslu er ótrúlega mikilvægt að við náum sátt um hvaða viðmið við viljum hafa í heiðri sem samfélag þegar kemur að samskiptum okkar á milli. Engin manneskja á að búa í samfélagi þar sem óæskileg hegðun, niðrandi tal um aðra og kynbundin áreitni eða kynferðisofbeldi er liðið. Við þurfum sem samfélag að leggjast öll á eitt að uppræta niðurlægjandi hegðun og stuðla öll að meiri virðingu, nærgætni og vera öll sammála um að það er lífsnauðsynlegt að útrýma kynbundinni áreitni, vinna gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldishegðun af hvers kyns toga. Það hlýtur að vera göfugt markmið fyrir árið 2019.

Ég óska öllum íbúum Kópavogs gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir liðið ár. Megi árið 2019 verða okkur umhverfis – og manneskjuvænt ár.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn