„Miklir möguleikar ef Sorpa verður flutt frá Dalveginum.“

Theodóra Þorsteinsdóttir,  Lögfræðingur og áhugamanneskja um Kópavog.
Theodóra Þorsteinsdóttir,
Lögfræðingur og í Y-lista Kópavogsbúa.

Undanfarin ár hef ég skrifað eina og eina grein um bæjarfélagið mitt Kópavog.  Að mestu hafa þær fjalla um ferðaþjónustu í Kópavogi, verslun og þjónustu á miðju höfuðborgarsvæðinu og undirbúning að stofnun Markaðsstofu Kópavogs. Á þessu hef ég mikinn áhuga og mig langar að skapa umræður á meðal bæjarbúa um bæinn okkar, um skipulagsmál, um viðburði, um skólamál, um íþróttafélögin og almennt um þróun og uppbyggingu í Kópavogi. Ekki til að gagnrýna heldur til að við hjálpumst að við að þróa bæjarfélagið. Við getum kallað það almenningsstjórnmál, eins og einhver sagði. Við erum svo sannalega ekki komin á endastöð í þróun og uppbyggingu í Kópavogi og tilefni greinarinnar í dag er Dalvegurinn, en fyrst aðeins að mér sjálfri.

Ég bý í Lindahverfi, því sæki ég mest alla þjónustu í Lindir, Smárahverfið og efri byggðir Kópavogs. Ég versla matvöru m.a í Krónunni, Bónus og Kosti. Finnst þæginlegt að hafa Lyfju, Sýslumanninn, Pósthúsið og öll hin fyrirtækin í nágrenninu. Freistast stundum á Smáratorgi eða í Smáralind á leiðinni heim og sæki í Turninn í auknu mæli. Heilsugæslan og Læknavaktin er í göngufæri, fisksalinn, fatahreinsun, föndurbúðin og allar hinar verslanirnar í stafrófinu eru hér allt í kring um mig.

Ef við horfum á Dalveginn í heild þá höfum við tvær stórar akkerisverslanir á sitthvorum endanum, annars vegar Smáralind og hins vegar Byko. Þar á milli er eitt flottasta og dýrasta verslunar- og þjónustusvæði á höfuðborgarsvæðinu. Uppbygging á eftir að eiga sér stað þar sem gróðrarstöðin Birkihlíð stóð en nær Smáratorgi er mikil gróska í verslun og þar er einnig fjöldi veitingastaða. Á nitjándu hæð í Turninum við Smáratorg er veitingastaður sem er að hasla sér völl í markaðssetningu meðal ferðamanna og kynnir sig sem The Tower Restaurant, „It is the highest restaurant in Iceland with spectacular view to the sea and the beautiful mountain circle.“

Smáralind, Smáratorg, Dalvegur og Smiðjuhverfi er ekki bara verslunarsvæði á miðju höfuðborgarsvæðinu heldur verður klárlega miðstöð verslunar og þjónustu fyrir stór-höfuðborgarsvæðið á næstu árum. Við höfum alla burði til að ná þeirri forystu, fjölga fyrirtækjum og um leið hækka atvinnustigið í bænum okkar.

Eitt er þó sem ég staldra við og hef gert í nokkur ár, það er staðsetning Sorpu á Dalveginum. Við erum með móttökustöð fyrir rusl og endurvinnslu á verðmætasta verslunarsvæðinu á landinu. Að mínu mati er ekki skynsamlegt að hafa slíka starfsemi á Dalveginum. Það fer ekki saman að hafa þessa miklu umferð gámabíla akandi um aðal verslunarsvæðið í Kópavogi. Það er ekki snyrtilegt, óspennandi fyrir fyrirtækin í nágrenninu og beinlínis hættulegt.

Ég veit ekki um neitt annað bæjarfélag sem hefur móttökustöð fyrir rusl og endurvinnslu á aðal verslunarsvæðinu hjá sér. Ég tala um aðal verslunarsvæði því miðbær Kópavogs er skilgreindur í Hamraborg.. Engar ákvarðanir né umræður hafa verið um að flytja Sorpu af Dalveginum, sem mér finnst miður. Það þyrfti ekki að fara mjög langt með Sorpu, t.d upp við Áhaldahús eða á aðrar slóðir, það þarf bara vilja til að finna út úr því.

Ég sé fyrir mér mikla möguleika ef Sorpa verður flutt.  Þetta er skjólgott svæði í nálægð við fallegt grænt svæði í tengingu við göngustíga og fallegt útivistarsvæði. Hvort sem þarna yrði grænt torg með kaffihúsi eða lágreist verslunarhúsnæði er ljóst að það mun lyfta svæðinu mikið að fá þarna aðra og hentugri starfsemi.

Nú langar mig til að spyrja ykkur Kópavogsbúa hvað ykkur finnst um staðsetningu Sorpu á Dalvegi?

Theodóra Þorsteinsdóttir
Lögfræðingur og í Y- Lista Kópavogsbúa

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar