Það þarf ekki að spjalla lengi við Þorbjörn Jensson, forstöðumann Fjölsmiðjunnar, til að sannfærast um að þar fer eldhugi með brennandi ástríðu fyrir því sem hann er að gera ásamt starfsfólki Fjölsmiðjunnar sem er til húsa í Víkurhvarfi í Kópavogi. „Markmið Fjölsmiðjunnar er að ná til þeirra ungmenna sem eru leitandi, af ýmsum ástæðum og styðja þau við að taka ákvarðanir um framtíð sína, hvort sem það er í skóla eða á almennum vinnumarkaði. Fjölsmiðjan er millilending og við styðjum þau mjúklega áfram til góðra verka en bara eitt skref í einu. Róm var ekki byggð á einni nóttu. Það er mikilvægt að safna litlu sigrunum,“ segir Þorbjörn. Hann beitir óhikað sömu ráðum og hann tileinkaði sér við þjálfun afreksíþróttamanna. Talið fer um víðan völl; um skólakerfið og unglinga, um handboltaferilinn, þjálfunina og hvernig hann beitir þekkingu sinni úr íþróttum, til að laða fram það besta úr hverjum einstaklingi. „Ég er vel skólaður í handboltanum, þar sem oft var tekist á með alls konar óþverraskap. Það þarf mikið til að koma mér úr jafnvægi,“ segir Þorbjörn og brosir. „Sem þjálfari þarf maður að vera mjög mikill mannþekkjari, geta hugsað hlutina einstaklingsmiðað og séð hvað einstaklingarnir eru ólíkir. Ég er dálítið naskur á að finna út hvar hæfileikarnir liggja. Það hafa komið til okkar einstaklingar sem hafa átt erfitt að finna sig í almennum skóla en spila til dæmis eins og englar á hljóðfæri. Af hverju eigum við ekki að virkja þá hæfileika og efla sjálfstaust þeirra og byggja ofan á það?“ spyr Þorbjörn.
Fékk bara nafnið í upphafi
„Í upphafi, þegar ég var ráðinn árið 2001, fékk ég nú eiginlega bara þetta nafn, Fjölsmiðjan, og var sagt að búa til vinnustað fyrir ungt fólk að danskri fyrirmynd. Ég fór til Danmerkur og kynnti mér öflugt vinnusetur í Óðinsvéum en sá strax að það þýddi ekkert að innleiða það nákvæmlega eins hér á Íslandi út af menningarmun okkar. Ég taldi betra að gera þetta á okkar forsendum og réð trésmið í september árið 2001. Við fengum óinnréttað 500 fermetra húsnæði á lóð Landspítalans í Kópavogi. Fyrsta verkefni okkar var að að fá unga krakka sem leituðu til okkar til að innrétta það. Þetta átti að vera þriggja ára tilraunaverkefni fyrir erfiða krakka en núna, fjórtán árum síðar, rekum við bílaverkstæði-, trésmiðju, handverkstæði, hússtjórnar-, rafmagns-, tölvu-, tækni- og pökkunardeildir fyrir allt að 90 nema í 1.900 fermetrum. Það er líka orðið miklu meira virði fyrir krakkana en áður að vera í Fjölsmiðjunni því hér geta þau náð í allt að 23 einingum á framhaldsskólastigi. Þetta er alvöru vinnustaður þar sem krakkarnir afla tekna. Þau náðu að safna 35 milljónum í fyrra með dugnaði sínum, sem vakti athygli langt út fyrir landsteinana. Trésmiðjudeildin hefur verið að smíða vörubretti ásamt ýmsum sérverkefnum meðal annars fyrir álverið á Grundartanga; bíladeildin fær verkefni fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Tölvudeildin fær tölvur til viðgerðar, svo dæmi séu tekin,“ segir Þorbjörn og bætir því við að pökkunar- og tölvudeild Fjölsmiðjunnar tekur að sér ýmis verkefni. Í mötuneytinu eru framreiddar máltíðir fyrir starfsfólkið og aðrir geta keypt sér hádegismat. Á handverksdeildinni fær sköpunargleðin að njóta sín og deildin selur framleiðslu sína á staðnum.

Tölvufíkn vaxandi vandamál
„Fólk leitar hingað af ýmsum ástæðum. Stundum hefur fólki gengið illa í skóla og minningar þaðan eru slæmar. Eða almennir erfiðleikar eins og gengur í lífinu. Sumir eru félagsfælnir og kvíðnir og eiga erfitt með að takast á við lífið. Síðan eru einstaklingar sem vita ekki hvað þeir ætla að verða og hafa ekki fundið nám við sitt hæfi. Þá er gott að byrja hjá okkur. Oft finna þeir hér einmitt það sem hentar þeim.“ segir Þorbjörn. „Við finnum mikið fyrir því hvað tölvan er að ræna marga krakka æskunni. Þau mæta hingað stundum örþreytt í vinnuna, sérstaklega eftir helgar. Þau hafa snúið sólarhringnum við fyrir framan tölvuna. En hér gilda reglur sem krakkarnir fara eftir. Til dæmis ef mætt er seint, um hálftíma, þá er sá tími dreginn af launum. Og það getur verið súrt að missa hálftíma kaup þegar upp er staðið,“ segir Þorbjörn.

Litlu sigrarnir eru dýrmætir
„Eitt það fyrsta sem við byrjum á að gera er að fá fólk til að hætta að líta á sig sem tapara. Við biðjum það góðfúslega að breyta viðhorfinu: „Ég get ekki“ sem oft er búið að innprenta. Það er miklu farsælla að skoða það jákvæða og byggja ofan á því. Allir geta eitthvað,“ segir Þorbjörn. „Smám saman byggist upp færni, þroski og sjálfsvirðing sem gerir fólki kleift að takast á við eitthvað sem virkaði kannski gjörsamlega óyfirstíganlegt í fyrstu. Alveg eins og í þjálfun íþrótta gildir sú meginregla að setja sér markmið og bera sig saman við þann besta, ekki þann versta,“ segir Þorbjörn og leiðir talið að þeim árangri sem hefur náðst frá því Fjölsmiðjan hóf starfsemi árið 2001.
800 ungmenni hafa verið í Fjölsmiðjunni
Á þeim fjórtán árum sem Fjölsmiðjan hefur starfað hafa 800 manns farið þar í gegn. 80% þeirra hafa fundið starf eða nám við hæfi. Hin 20% eru oft tengd neyslu fíkniefna og eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Þau hverfa og koma svo kannski aftur í Fjölsmiðjuna, að sögn Þorbjörns. „Þau halda hér launum á meðan þau eru í meðferð svo lengi sem þau standa sig og útskrifa sig ekki sjálf. Við göngum langt í að hjálpa þeim og komum með þeim í viðtal hjá SÁÁ, ef með þarf,“ segir Þorbjörn. En hvað gera krakkarnir eftir að Fjölsmiðjunni lýkur, hafa þau fundið störf við hæfi og fótað sig í lífinu? „Þau hafa tekist á við allt mögulegt. Þumalputtareglan er sú að ef einstaklingur mætir á réttum tíma, lætur sér lynda við vinnufélaga sína og vinnur vinnuna sína þá fer að nálgast að viðkomandi geti spjarað sig allvel sjálfur án okkar aðstoðar. Engum er þó hent út úr Fjölsmiðjunni en við styðjum alla í rólegheitum aftur út í atvinnulífið eða í nám til að láta drauma rætast. Við dæmum engan draum heldur athugum og skoðum allt fyrir viðkomandi. Einn vildi ganga í norska herinn en finnur sig reyndar vel við garðyrkjustörf hér heima í dag. Annar vildi taka meiraprófið og er nú að keyra um alla Evrópu fyrir flutningafyrirtæki í Danmörku. Málið er að stilla væntingum í hóf og vera viðbúin að mæta krökkunum þar sem þau eru. Þau eru vön því að gefast upp og flýja frekar en að reyna á sig. Við sem störfum hér erum alltaf með þetta í huga og tökum á því, eitt skref í einu,“ segir Þorbjörn.