Guðrún Gunnarsdóttir, söngkona, sagði frá því í síðustu viku að uppáhalds staðurinn sinn í Kópavogi væri Salurinn. Guðrún skorar á Ingibjörgu Hinriksdóttur að segja frá sínum uppáhalds stað:
„Minn uppáhaldsstaður í Kópavogi er í raun allur Digraneshálsinn austan gjár, en eftir því sem hann rís hærra þeim mun meira er hann í uppáhaldi. Ég er alin upp á Álfhólsvegi 80 og sunnan við það hús rísa Víghólar hæst og þar var minn æskuleikvöllur. Þar var algjört ævintýraland fyrir okkur krakkana, sem vorum fjölmörg á svæðinu. Þarna voru háðar margar baráttur, bæði í móanum í kringum Víghólinn, á Heiðarvelli sem var aðal knattspyrnuvöllur ÍK, í sunnudagaskólanum sem var í hvíta húsinu þar austan við og í Digranesskóla sem var minn barnaskóli.
Eini staðurinn þar sem engar baráttur voru háðar var í raun við Álfhólinn þar sem ég átti margar gæðastundir með álfunum og huldufólkinu sem þar býr. Það er ómetanlegt að eiga svona stað þar sem ímyndunaraflið fær að leika lausum hala og fólk (hvort sem það er til í raunveruleikanum eða ekki) tekur manni og hugmyndum mans á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.“