Úr HK í FRAM og frá FRAM í „ÍK“

Hólmbert Aron í Celtic: „Hlakka til að láta ljós mitt skina.“

Hólmbert Aron Friðjónsson. Mynd af heimasíðu Celtic.
Hólmbert Aron Friðjónsson. Mynd af heimasíðu Celtic.

Kópavogur hefur eignast enn einn atvinnumanninn í fótbolta því eins og kunnugt er gekk sóknarmaðurinn efnilegi, Hólmbert Aron Friðjónsson, fyrrum leikmaður HK og síðast FRAM, nýlega í raðir skoska úrvalsdeildarfélagsins Celtic. Þetta sögufræga skoska lið leikur i sama búningi og Íþróttafélag Kópavogs, ÍK, lék í á árum áður – þverröndóttum grænum treyjum. Saga ÍK og Celtic er tvinnuð saman en Jóhannes Edvaldsson, sem lék með liðinu á árum árum, var sérstakur verndari ÍK þar sem „Jóhannesar Edvaldssonar skjöldurinn“ var veittur bestu leikmönnum félagsins ár hvert. ÍK heitið – og blessuð sé minning þess – rann inn í HK þaðan sem Hólmbert sleit takkaskónum. Og nú fær Celtic okkar besta son.

-Það er hörð baráttan um að komast í liðið hjá Celtic. Hvernig leggst þetta í þig?

„Bara mjög vel. Ég er mjög spenntur en líka örlítið stressaður. Þetta er hörku lið en ég fékk góðar móttökur hjá þeim og þjálfarinn, Neil Lennon, hefur trú á mér. Það eru margir góðir leikmenn hjá Celtic og ekki sjálfgefið að komast í liðið en ég mun leggja mig allan fram,“ segir Hólmbert Aron.

-Þú ert fæddur og uppalinn í Kópavogi?

„Já, og HK-ingur fram í fingurgóma.. Ég bjó í Hlíðarhjalla en hef nú upp á síðkastið búið í Salarhverfinu. Ég gekk í Digranesskóla þar sem menn eins og Hannes Guðmundsson og Skafti Þ. Halldórsson reyndu að kenna mér eitthvað en ég vildi oftast vera í fótbolta að æfa mig. Ég lék minn fyrsta leik í fyrstu deildinni sautján ára gamall fyrir HK. Kópavogur er minn staður og HK er mitt lið,“ segir Hólmbert.

-Hvernig er svo að vera kominn í ÍK treyjuna?
„Þetta er bara gríðarlega flott treyja! Gaman að sögulegu tengingunni við gamla ÍK, en ég er of ungur til að muna hana. Það eru margir ÍK-ingar sem starfa í HK og margar sögur sagðar. En treyjan er flott og ég hlakka til að reyna mig með Celtic.

-Þú gekkst í raðir FRAM árið 2011 og negldir inn fullt af mörkum þannig að eftir var tekið. Celtic sýndi fljótt áhuga, gengu félagsskiptin hratt fyrir sig?
„Já, þetta tók um fjórar vikur frá því Celtic hafði samband við FRAM þangað til kaupin gengu í gegn. Eftir að þeir gerðu tilboð gekk þetta fljótt og vel. Mér líst mjög vel á að leika með Celtic og ætla að láta ljós mitt strax skína. Það er hörð samkeppnin um stöðurnar eins og hjá flestum stórliðum sem eru í Meistaradeildinni. Celtic á leik gegn AC Milan í lok nóvember en ég verð löglegur með liðinu strax eftir áramót þegar félagsskiptin ganga formlega í gegn. Ég fer út núna í byrjun desember og byrja að æfa aftur eftir stutt hlé,“ segir Hólmbert Aron sem hefur haldið sér í góðu formi þrátt fyrir að keppnistímabilið sé löngu búið á Íslandi.

-Margir muna eftir þegar Celtic sigraði Barcelona í Meistaradeildinni í fyrra og Rod Stewart grét í stúkunni. Þetta er hörkulið?
„Já, það þarf hörkulið til að sigra Barcelona. Það eru kannski ekki þekktir leikmenn sem leika með liðinu, fyrir utan Georgios Samaras, gríska landsliðsmanninn, og ef til vill Scott Brown, fyrirliða, en svo er líka mjög góður markmaður, Fraser Forster sem hefur verið varamarkvörður enska landsliðsins. Liðið er mjög þétt og hefur metnað til að ná lengra.“

-Hvað viltu segja við unga lesendur sem hafa hug á atvinnumennsku i knattspyrnu?

„Æfa, æfa og æfa. Það er það sem hefur fleytt mér hingað, fyrst og fremst. Aldrei að gefast upp og vera úti á fótboltavelli alla daga, öllum stundum. Æfa sig með boltann og hafa metnað til að ná lengra. Þetta er það sem ég hef alltaf gert og ætla áfram að gera,“ segir Hólmbert Aron Friðjónsson, fyrrum leikmaður HK og FRAM sem nú er genginn í raðir Celtic í Skotlandi.

Hólmbert Aron Friðjónsson.  Mynd af heimasíðu Celtic.
Hólmbert Aron Friðjónsson. Mynd af heimasíðu Celtic.

Umræðan

Fleiri fréttir

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í vikunni Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2026-2028. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að