Fyrrum formaður bæjarráðs opnar snyrtivörubúð í Smáralind
Rannveig Ásgeirsdóttir, fyrrum formaður bæjarráðs og oddviti Y lista, hefur kvatt pólitíkina og snúið sér að verslunarrekstri. Hún hefur nú opnað snyrtivöruverslunina Coolcos í Smáralind ásamt dóttur sinni, Helgu Karólínu Karlsdóttur.
„Þetta er tveggja ára hugmynd hjá okkur Helgu Karólínu sem er förðunarfræðingur,“ segir Rannveig. „Helga kynntist Coolcos merkinu þegar hún bjó í Danmörku og við ákváðum að kýla á þetta. Við tókum hálft ár í undirbúning og að prófa vörurnar hér heima og þann fimmta desember 2013 opnuðum við svo förðunarstofu á Nýbýlaveginum og vefverslun og nú er þetta litla fjölskyldurekna fyrirtæki komið í Smáralind. Viðtökurnar hafa verið frábærar hjá öllum aldurshópum og við erum himinlifandi með það.“
Var þá komið nóg af pólitíkinni?
„Já, í bili allavega. Þetta var mikil rússíbanareið síðustu fjögur árin. Oft var þetta erfitt en líka mjög skemmtilegt og óneitanlega lærði maður ýmislegt á þessum tíma, en menn verða bara að bíða eftir bókinni til að heyra meira um það. Nú get ég hakað við að hafa verið í pólitík þó að það hafi nú ekki verið á upphaflega markmiðalistanum. En það er spennandi að sjá hvaða beygjur lífið tekur stundum. Verslunarrekstur er mjög skemmtilegur og ólíkur því sem ég hef verið að gera. Ég er nú ekki ókunnug rekstri því ég rak áður þjónustufyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. En hvort ég snúi aftur í pólitík verður bara að koma í ljós, maður getur aldrei sagt aldrei …er það?“
Hver er sérstaða Coolcos?
„Vörurnar okkar eru tískuvara sem eru hollar fyrir húð og líkama. Það eru engin viðbætt ilmefni í þeim, en margir hafa óþol fyrir slíku og stóra málið er að það eru ekki paraben í þeim, en paraben eru í flokki með þalötum og skordýraeitri sem hormóna- og frumuraskandi efni. Danir eru gríðarlega framarlega í þessum fræðum og rannsóknir sýna að við þurfum að fara varlega með hvað við setjum utan á okkur ekki síður en ofan í okkur. Þeir hafa sett á fót efnavakt í samstarfi við neytendasamtökin í Danmörku til þess að leiðbeina fólki og fræða. Þeir eru að mörgu leyti strangari en aðrar þjóðir og hreinlega banna ákveðin paraben í vörum fyrir ungt fólk og börn. Við höfum einnig fengið fyrirspurnir um hvort það sé hveiti í vörunum okkar, en þeir sem eru haldnir glútenóþoli virðast þola verr vörur sem innihalda slíkt, en hveiti hefur verið notað sem bindiefni. Einnig má geta þess að naglalökkin okkar innihalda ekki formaldehýð og vörurnar eru ekki prófaðar á dýrum. Ég hef unnið í heilbrigðisgeiranum í bráðum 30 ár og hef verið lánsöm að geta leitað til sérfræðinga til þess að ræða þessi mál og fylgist vel með rannsóknum og skrifum á þessu sviði. Við höfum skyldur við neytendur og það er að geta sagt að við séum með góða vöru því það er okkar grunnmarkmið og viljum bjóða þær á viðráðanlegu verði. Hollt á ekki að vera dýrara, þú átt að hafa efni á því að bjóða sjálfri þér góða vöru og stuðla að góðri heilsu,“ segir Rannveig Ásgeirsdóttir, verslunareigandi í Smáralind og fyrrverandi formaður bæjarráðs.