Unnið hefur verið eftir hugmyndafræði um grunnskóla án aðgreiningar frá því undir lok síðustu aldar. Hún byggir á því að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennum skóla í nærumhverfi, með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Þetta er í takt við tíðarandann um að fagna eigi fjölbreytileika samfélagsins og að öll börn eigi að geta notið sín og fengið kennslu við hæfi.
Þegar slíkri hugmyndafræði er fylgt er óhjákvæmilegt að upp komi vandamál, enda erfitt að koma til móts við fjölbreyttan hóp nemanda. Á það sérstaklega við þegar börn eiga við mikinn hegðunarlegan, félagslegan eða tilfinningalegan vanda. Í skólum Kópavogs fer fram mikið og gott starf, en alltaf koma upp tilvik þar sem börn með alvarlegan og fjölþættan vanda geta ekki fengið kennslu við sitt hæfi í sínum hverfaskóla. Úrræðaleysi einkennir því miður þennan málaflokk í Kópavogi.
Samkvæmt lögum um grunnskóla geta sveitarfélög beitt sé fyrir rekstri sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda. Með slíkum úrræðum er nemendum tímabundið veitt sérhæft umhverfi til náms til þess að koma til móts við þarfir þeirra. Starfsfólk slíkra sérskóla hefur einnig það hlutverk að veita starfsfólki almennra grunnskóla stuðning og kennslufræðilega ráðgjöf. Í Reykjavík er starfandi slíkur ráðgjafar- og sérskóli, Brúarskóli, á fimm mismunandi starfsstöðvum, en biðlistarnir eru það langir að skólinn er ekki raunhæft úrræði fyrir börn úr Kópavogi. Enginn slíkur skóli starfar í Kópavogi.
Framsókn mun beita sér fyrir því að komið verði á fót ráðgjafar- og sérskóla í Kópavogi þar sem börn með mikinn hegðunarlegan, félagslegan eða tilfinningalegan vanda geta stundað nám tímabundið á meðan unnið er í þeirra málum. Það er mín sannfæring að með slíkum sérskóla verði komið til móts við öll grunnskólabörn í Kópavogi. Ekki bara þau sem nýta sér úrræðið, heldur einnig hin, sem munu fá betri þjónustu í almennu skólunum.
Ekki verður lengur lifað við það úrræðaleysi sem nú ríkir.