Fjögur verkefni voru styrkt af Forvarnarsjóði Kópavogs í ár. Hæsta styrkinn. 500 þúsund, hlaut Félagsmiðstöð eldri borgara í Gjábakka fyrir verkefni sem snýst um að kenna eldri borgurum á spjaldtölvur og eru það ungmenni úr Kópavogi sem sjá um kennsluna. Menningarhúsin í Kópavogi hlutu 400 þúsund króna styrk fyrir verkefni sem snýst um að styrkja konur og börn af erlendum uppruna með því að skapa vettvang þar sem þau geta komið saman, talað og fengið ýmis konar fræðslu. Menntaskólinn í Kópavogi fékk 400 þúsund fyrir verkefni sem snýst um bætta lýðheilsu framhaldsskólanema með áherslu á svefn. Loks fékk Félagsmiðstöðin Þeba 200 þúsund króna styrk fyrir útivistarverkefni félagsmiðstöðvarinnar.
Margrét Friðriksdóttir, formaður menntaráðs, afhenti styrkina en auk hennar sátu í valnefnd, Elvar Páll Sigurðsson og Helgi Magnússon.
Forvarnarsjóður var stofnaður í byrjun árs 2014. Úthlutað er úr honum einu sinni á ári samkvæmt tillögum frá forvarna- og frístundanefnd. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að öflugu forvarna- og frístundastarfi í Kópavogi.