Sylvia Dagmar Briem Friðjónsdóttir skrifar um útlitsdýrkun ungra stúlkna:
Ég var í sundi um daginn og varð vitni af samtali hjá tveimur strákum. Samtalið var eftirfarandi:
A: “Ég svaf hjá X í gær, hún kom til mín í nótt”
B: “haha nei í alvöru, hún er samt með sílíkon er það ekki, voru brjóstin flott?”
A: “já þau voru mjög flott”
B: “Er hún samt ekki með hliðarspik?”
A: “jú nefnilega”
Það er ekki margt sem gerir mig alveg óstjórnlega reiða, en þetta gekk alveg fram af mér. Þessi umtalaða útlitsdýrkun, mér finnst þetta vera alveg endalaust í umræðunnni, en ekkert breytist. Þetta versnar bara ef eitthvað er. Það er eins og fólk sé ekki viðurkennt í samfélaginu nema það sé fastmótað eftir einhverjum stöðlum sem kallast fegurð. Þegar ég fer til útlanda þá elska ég að setjast niður á kaffihús og horfa á hvað fólk er skemmtilega misjafnt, allskonar karakterar. Ég kem upp á flugvöll og er að leita af röðinni sem flýgur til Íslands og það er oft ekki erfitt að finna hana. Það er hópurinn sem er allur eins til fara. Ótrúlegt. Ég hvet ykkur til að taka eftir þessu. Íslendingar eru mjög svipaðir í klæðaburði og með svipaða klippingu.
Við erum svo lítið land og verðum fyrir fjölmiðlastraumum víða. Við erum virkilega vel upplýst hvað þykir flott og hvað ekki. Það kannski leiðir af sér að mjög margir eru að passa sig að fitta inní þennan svokallaða ”fegurðar ramma”, því ef við erum ekki innan staðlanna þá erum við ekki viðurkennd.
Svo virðist sem það sé líka í tísku að vera með eins óheilbrigðan líkama og þeir gerast. Of grannur, með gat á milli læranna og innfallinn maga (bikiní brú). Eins og hefur verið í umræðunni..
Ég var að hjálpa nokkrum ungum stelpum að setja sér markmið. Margar af þeim skrifuðu “að missa 10 kg.” Stelpur sem að eru ekki einu sinni komnar með vöxt!
ÉG ÞOLI ÞETTA EKKI.
Ég er svo ánægð að á þessum aldri var þetta ekki einu sinni pæling. Mér líður núna eins og gamalmenni að segja þetta. En er þetta í lagi? Þegar ég var á þessum aldri pældi ég ekki í þessu, leið vel að vera með spangir, með ofursleikt tagl, í HK gallanum og pældi ekki í því hvort að lærin á mér væru stór eða ekki.
Svo sé ég stelpur sem eru á 12-13 ára á Road house að fá sér að borða. ALLAR í disco pants og magabol. Út af því að tískan er orðin þannig. Mér hefði ekki dottið til hugar að fara þannig út þegar ég var yngri. HAHA mér líður í alvörunni eins og gamalli herfu að skrifa þetta. Ég hélt ég yrði ALDREI þessi týpa að tuða út af yngri kynslóðinni. Ég þoldi ekki þessar týpur þegar ég var yngri. En mér finnst svo óeðlilegt að stelpur á þessum aldri þurfi að klæða sig svona. Samhliða þessari þróun er sú að kynhegðun og kynlíf er orðið að markaðsvöru og sjálfsagður hlutur. Svo hefur þessi kynslóð fengið á sig stimpilinn „klámkynslóðin.“ Hægt og bítandi virðist gildi hennar vera að „klámvæðast.“ Sakleysi æskunnar er því miður eitthvað sem heyrir sögunni til og vona ég innilega að eitthvað sé hægt að gera til þess að koma í veg fyrir það. Um leið og heil kynslóð vex úr grasi með þessum gildum berast okkur fregnir af mikilli aukningu nauðgana hér rétt eins og erlendis, aukast nauðganir ókunnugra og raðnauðganir.
Svo kom ein mamma til mín um daginn og var að segja mér að stelpan hennar sem er 10 ára hefði staðið fyrir framan spegilinn á nærbuxunum. Hún var að halda maganum inni og ýta brjóstunum sínum upp. Mamma hennar spurði hana afhverju ertu að þessu?
Hún sagði: „mig langar í sílíkon.“
Ég fæ illt í hjartað.. mér finnst þetta svo leiðinlegt og sorglegt.
Eins og ég hef komið inná áður þá eru krakkar og fólk mest hrætt við að gera mistök og álit annarra. Þess vegna er fólk kannski að reyna að festa sig inní eitthverjum ramma til þess eins að vera viðurkenndur. Það vilja allir vera mikilvægir það er stærsta grunnþörf mannkynsins og mér finnst við sjá það bara svo bersýnilega hér á Íslandi hvað það er satt og augljóst, svo ótrúlega mikið af fólki er að reyna að halda sig fyrir innan þennan samþykkta ramma samfélagsins sem er „óheilbrigður og sexy“.

með kveðju,
Sylvia HEX