Höfundur: Arnþór Sigurðsson.
Eins og mörgum er kunnugt um kom óvænt tillaga upp í bæjarstjórn Kópavogs að gefa bæjarstjóranum Ármanni Kr. Ólafssyni heimild til þess að fjárfesta í Norðurturni Smáralindar 3500 fermetra af húsnæði og skuldsetja bæinn um leið um 1500 milljónir. Það má segja að þessi tillaga komi af himnum ofan og í algjörri þversögn við það sem áður hefur verið sagt aftur og aftur, að það eigi að leggja ofuráherslu á að lækka skuldir bæjarins sem eru gríðalega miklar. Bara vaxtagjöldin á hverju ári nægja til þess að reka alla leikskóla bæjarins. Það er þá varla á bætandi. Skuldir bæjarins eru skuldir íbúa bæjarins, þeir greiða þær. Bæjarstjórinn og bæjarstjórnin virðist hinsvegar ekki hugsa málið á þeim nótum heldur telja þetta vera þeirra einkamál. Það væri svo sem í lagi ef þessir sjö bæjarfulltrúar sem mynda meirihlutann eru tilbúnir til þess að greiða af þessari viðbóta skuld sjálfir en það er víst ekki þannig.
Þá stendur til að selja Félagsheimili Kópavogs án umræðu um það við íbúa bæjarins. Það þykir mér mjög sérstakt. Þetta ágæta félagsheimili hefur langa sögu í mannlífi Kópavogs. Að auki var þetta hús byggt að hluta í sjálfboðavinnu. Þess vegna er virðingin fyrir húsinu og þeim sem eiga húsið lítil ef það verður selt án þess að halda einn íbúafund eða svo um málið, um framtíð þessa húss. Það er svo sem alveg í anda þessarar bæjarstjórnar. Þau áform sem voru uppi og samþykkt um viðhald og uppbyggingu húsanna á Kópavogstúninu hafa dagað uppi. Kópavogsbærinn gamli heldur áfram að grotna niður og engar frekari framkvæmdir hafa verið á gamla hælinu eins og til stóð að gera. Félagsheimilið má þá greinilega fara sömu leið, virðingin fyrir því sem gerir Kópavog að því sem hann var og er, er engin. Hvað skyldi þá ráða för?
Menn virðast vera svo fljótir að gleyma. Árið 2008 var Kópvogur svo illa settur að það lá við gjaldþroti. Skuldirnar voru miklar og sveitarfélagið var sett undir eftirlit ráðuneytis ásamt Reykjanesbæ og öðrum skuldsettum sveitarfélögum. Ólin var hert og skorið niður á flestum sviðum stjórnsýslunnar. Áhersan hefur verið að borga niður skuldir öll árin eftir 2008 og gengið bærilega. En hér eru menn sem báru ábyrgð á stöðunni 2008 aftur byrjaðir á sömu nótum. Virðast ekkert hafa lært. Það er sorglegt að verða vitni að því.
Rekstur bæjarins gengur ekkert allt of vel og stefnir í hallareksur á bæjarfélaginu á miðað við þær mánaðarskýrslur sem eru gefnar út af bænum. Fjárhagsáætlunin er því að fara úr böndunum og er því enn meiri ástæða til þess að fara hægt í sakirnar á stórum fjárfestingum. Þrátt fyrir teikn á lofti um slæman reksur bæjarins er engin leið að fá meirihlutann til þess að staldra við. Eitthvað annað en umhyggja fyrir afkomu og skuldsetningu sveitarfélagsins ræður för. Það sýna öll merki þessa máls.
Björt framtíð er flokkur sem bauð fram í fyrsta skipti í Kópavogi og náði tveimur bæjarfulltrúum og myndaði flokkurinn meirihluta með Sjálfstæðisflokki. Út á hvað var þessi blessaði flokkur kosinn. Við skulum glugga aðeins í stefnuskránna:
Tekið beint úr stefnuskrá Bjartrar framtíðar í Kópavogi:
- Með rökræðu sem byggir á skynsemi og þekkingu. Mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar komi að borðinu og taki þátt í opnu samtali og vinni saman að bestu lausn.
- Með opinni stjórnsýslu og skynsamlegri ákvarðanatöku.
- Með gegnsæi og bættu aðgengi að upplýsingum um þjónustu bæjarins.
- Með auknu íbúalýðræði þar sem aðgengi að kjörnum fulltrúum er aukið og íbúum auðveldað að taka afstöðu til fleiri mála með beinum hætti.
Ef þessir liðir eru skoðaðir og horft er á fyrirhugðu kaup í Norðurturninum og söluna á Félagsheimilinu þá er þessi stefna gjörsamlega á skjön við það ferli allt. Engin samræða við íbúa. Farið er með málið eins og þjófar að nóttu. Ekkert sarmráð.
En hvers vegna er þetta ágæta fólk að flýta sér svona mikið með þetta mál? Hvorki var þetta kosningamál né í umræðu um framtíð stjórnsýslunnar í síðustu kosningum. Hvað rekur þá blessað fólkið áfram. Hvers vegna er allt í einu í lagi að auka skuldir bæjarins núna? Hvers vegna þessi flýtir?
Tvennt vekur ugg. Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs og oddviti Bjartrar framtíðar er fyrrverandi Markaðsstjóri Smáralindar. Ármann Kr. Ólafsson hefur þegið persónulega peningastyrki af söluaðilum Norðurturnsins í Smáralind. Þarf að hafa orðin fleiri? Er hið augjósa ekki komið upp á yfirborðið? Bæði tvö reka málið áfram með harðfylgi en eru augljóslega vanhæf til þess að taka ákvarðanir um kaupin. Þau ættu líka að skammast sín fyrir það að tala ekki við eigendur Félagsheimilis Kópavogs áður en þau tóku ákvörðun um að selja það. Þau hafa nefnilega tekið ákvörðunina en þau hafa ekki ennþá fengið heimildina til þess að selja né til þess að kaupa í Norðurturninum. Hinn mæti maður Sverrir Óskarson annar af bæjarfulltrúum Bjartrar framtíðar samþykkti frestun á málinu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Hann er maður meiri í mínum huga eftir þá atkvæðagreiðslu þar sem hann kaus með minnihlutanum um frestun en á móti Ármanni bæjarstjóra og félögum í Sjálfstæðisflokknum. Það stóð til að taka frí í bæjarstjórninni fram á haust en nú herma fregnir að það eigi að funda fljótlega aftur, það liggur á að fá heimild til þess að skuldsetja íbúa Kópavogsbæjar fyrir 1500 milljónir.