Sannkölluð tónlistarveisla verður í allan vetur í Salnum. Tíbrá tónleikaröðin heldur áfram með tíu fjölbreytta tónleika og Af fingrum fram tónleikaröð Jóns Ólafssonar siglir inn í tíunda veturinn í Salnum. Af nýjungum má nefna Jazz í Salnum sem er röð tónleika með heimsklassa jazzleikurum og í janúar verður blásið til norrænnar Rapp og Hipp Hopp helgar, svo nokkuð sé nefnt. Á næstu dögum mun Salurinn auglýsa eftir umsóknum í nýjan tónverkasjóð.
Ljóðatónar, píanótríó, jazz, dægurlög, Kólumbísk tónlist of margt fleira í Tíbrá
Helena Eyjólfsdóttir ásamt strengjasveit kemur fram á fyrstu Tíbrártónleikunum vetrarins en næst á eftir stíga Íslenskir strengir á svið með metnaðarfulla efnisskrá. Í tilefni níræðisafmælis Jóns Ásgeirssonar verður blásið til sönglagaveislu með Auði Gunnarsdóttur, Gunnari Guðbjörnssyni og Snorra Sigfússyni. Nýju ári verður fagnað með fiðluleikaranum Rannveigu Mörtu Sarc og píanóleikaranum Jane Ade Sutarjo, Spænskur ljóðaleikur og ástarljóðavalsar verða á efnisskrá tónleika í febrúar, Tvær hörpur eiga leik í mars með Elísabetu Waage og Katie Buckley. Los Mambolitos flytja Kólumbíska tónlist um miðjan mars og í apríl flytur Tríó Nordica rússnesk slavnesk píanótríó um leið og það fagnar 25 ára starfsafmæli.
Það er því af mörgu að taka í Tíbrá og tilvalið að festa sér miða í áskrift í tæka tíð.
Tíu gestir á tíu tónleikum í tilefni tíunda vetrar Af fingrum fram í Salnum
Af fingrum fram heldur inn í tíunda veturinn. Tónleikarnir telja alls 73 og hafa á annað tug þúsunda gesta sótt þá enda má með sanni segja að hér séu á ferðinni tónleikar sem eiga sér enga hliðstæðu. Gestir Jóns í gegnum árin telja 33 og í vetur bætast í þann hóp tónlistarmennirnir Emilíana Torrini, Ragnhildur Gísladóttir, Selma Björnsdóttir og Jón Jónsson en auk þeirra verða endurteknir tónleikar með Stefáni Hilmarssyni, Magnúsi Eiríkssyni, Ladda, Valdimari Guðmundssyni, KK og Páli Óskari.
Það fylltist nánast á tónleikana í forsölu og eru aukatónleikar komnir í sölu.
Jazz í Salnum og Rapp og Hipp Hopp helgi í janúar
Fimm tónleikar verða yfir veturinn í nýrri tónleikaröð Sunnu Gunnlaugsdóttur sem nefnist Jazz í Salnum. Verður þetta einstakt tækifæri fyrir jazz unnendur að hlýða á heimsklassa jazzsólóista á tónleikum hér á landi.
Í lok janúar verður blásið til Rapp og Hipp Hopp helgar þar sem Rapp tónlistarmenn frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku koma fram ásamt íslenskum listamönnum. Verkefnið er hluti af PULS og styrkt af Nordisk Kultur Fund.
Nýr Tónverkasjóður Salarins
Á næstunni verður auglýst eftir umsóknum í nýjan tónverkasjóð Salarins sem hefur það meginmarkmið að stuðla að frumsköpun í tónverkagerð og að kynna íslensk tónskáld. Stefnt er að flytja verkin á tónleikum í tilefni að tuttugu ára afmæli Salarins á næsta ári. Sjóðurinn er styrktur af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
Auk alls þessa verður áfram boðið upp á fjölskyldustundir og hádegistónleika í hverjum mánuði. Frítt er inn á þá viðburði og allir velkomnir.