Knattspyrnudeild HK hefur gert samning við Daða Rafnsson sem yfirmann knattspyrnuþróunar hjá félaginu. Daði mun taka að sér ráðgjöf og verkefnastjórn sem miðar að því að leita tækifæra í félaginu sem eiga að lyfta knattspyrnudeild HK í hóp öflugustu deilda landsins.
Daði er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, sem var stofnað fyrir rúmu ári síðan. Hann er fyrrum yfirþjálfari knattspyrnudeildar Breiðabliks og var aðstoðarþjálfari Jiangsu Suning í atvinnumannadeild kvenna í Kína. Hann er jafnframt stundakennari við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík og vinnur að doktorsrannsókn í íþróttafræði við sama skóla.
„Það er mjög spennandi að fá að koma að þeirri uppbyggingu sem á sér stað í HK um þessar mundir“, segir Daði. „Deildin er með þeim fjölmennustu á landinu og meistaraflokkarnir stefna markvisst hærra þannig að ég hef mikla trú á því að það sé hægt að vinna hér gott starf með því öfluga fólki sem hér starfar. Í raun má segja að HK sé nú nýtt félag á gömlum grunni eftir flutninginn í efri byggðir Kópavogs. Aðstaðan, stærðagráðan og möguleikarnir til að ná árangri er öll til staðar og ég upplifi einarðan vilja stjórnar til að láta það tækifæri ekki úr hendi sleppa. Mitt verkefni er að veita faglega ráðgjöf og stýra verkefnum úr hlaði sem geta aukið gæði í starfi deildarinnar. Ég þakka stjórnendum traustið til að fá að einblína á framtíðina og hlakka til að vinna með lykilstarfsmönnum deildarinnar að því að koma HK í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.“