Halldóra Aradóttir, píanókennari, ritar:
Tónlistarskólakennarar hafa nú verið í verkfalli í meira en viku eða síðan á miðvikudag í síðustu viku og hafa kennarar í 80 tónlistarskólum um allt land lagt niður vinnu. Af þeim 550 kennurum sem verkfallið nær til starfa á fjórða tug kennara við Tónlistarskóla Kópavogs. Verkfallið snertir 510 af þeim 560 nemendum sem stunda nám við skólann á einn eða annan hátt. Það er því hljótt í Tónlistarskólanum við Hamraborg þessa dagana.
Samningar tónlistarskólakennara hafa verið lausir síðan í mars og eru þeir ósáttir við seinaganginn í viðræðunum við samninganefnd sveitarfélaga, en fyrsta viðræðuáætlun var gerð í desember á síðast ári. Laun þeirra hafa mjög dregist aftur úr launum annarra kennara síðustu ár og hafa þeir verið látnir sitja á hakanum í síðust samningum. Tónlistarskólakennarar geta ekki lengur sætt sig við að störf þeirra og menntun sé ekki metin til jafns við aðra kennara sem starfa á vegum sveitafélaganna, þ.e. grunnskóla- og leikskólakennara og eru orðnir langþreyttir á því skilningsleysi sem samninganefd sveitarfélaga sýnir starfi þeirra.
Í ávarpi sem Sigrún Grendal formaður FT hélt á Austurvelli eftir Kröfuskrúðgöngu tónlistarskólakennara á miðvikudag sagði hún m.a. að samninganefnd FT velti því fyrir sér hvort Reykjavíkurborg héldi samningaviðræðum FT og SNS í gíslingu. Í erindi sínu á samræðufundi í Kaldalóni sem haldinn var kvöldið áður en verkfallið skall á sagði dr. Ágúst Einarsson prófessor tónlistarkennslu stórlega vanmetna sem undirstöðu í þeirri miklu verðmætasköpun sem á sér stað í tónlist hér á landi og að tónlistarlíf hér á landi sé í hættu vegna skammsýni kjörinna fulltrúa. Það er ekki hægt að höggva að rótunum ef við viljum halda í það gróskumikla tónlistarlíf sem er í landinu.
Halldóra Aradóttir, píanókennari