Málefnasamningur Framsóknarflokks, Lista Kópavogsbúa og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi um meirihlutasamstarf var undirritaður 9. febrúar 2012. Þessir stjórnmálaflokkar hafa því haft rúm tvö ár til að hrinda í framkvæmd og ljúka þeim verkefnum sem skilgreind eru í samningnum.
Áhugasamir Kópavogsbúar geta kynnt sér samninginn á vefslóðinni: http://www.kopavogur.is/media/pdf/malefnin.pdf. Þar gefur að líta 42 atriði sem meirihlutinn sameinaðist um, þegar hann tók við völdum. Þeim er skipt í 7 flokka; skóla og menntamál, félagsmál, æskulýðs- og íþróttamál, málefni aldraða, skipulags- og umhverfismál, stjórnsýslu, fjármál og atvinnu- og ferðamál.
Ég fæ ekki betur séð en að meirihlutinn hafi svikist um að vinna að 21 af þeim 42 atriðum sem hann lofaði bæjarbúum. Plaggið er aðeins 2 blaðsíður og verður þessi árangur að teljast afar slappur. Helmingur loforða svikinn. Gera átti greiningu á leik- og grunnskólum og annarri menntastarfsemi sem bæjarfélagið kemur að, með tilliti til þjónustu og reksturs. Sú greining hefur EKKI farið fram. Endurskoða átti fyrirkomulag dægradvala, meðal annars með aukinni aðkomu íþrótta- og tómstundafélaga. EKKERT hefur gerst í þeim efnum.
Það átti að fjölga félagslegum íbúðum. EKKI hefur það gerst. Það átti að hefja framkvæmdir við byggingu nýrra hjúkrunarrýma í Boðaþingi árin 2012 og 2013. Þau hafa EKKI risið enn, nú um mitt ár 2014. Það átti að leita leiða til að hraða endurbótum á Sunnuhlíð til að fjölga hjúkrunarrýmum. EKKERT hefur gerst í þeim efnum og samkvæmt orðum bæjarstjórans, Ármanns Ólafssonar, á fundi með eldri borgurum um síðustu helgi, ætlar bærinn, undir hans forystu ekki að vinna að lausn vanda Sunnuhlíðar nema ríkisvaldið komi þar að máli. Það átti að vinna að úttekt á aðstæðum og þjónustu við aldraða í heimahúsum. Hefur einhver séð þá útttekt? Það átti að gera átak í fegrun og snyrtingu bæjarins. Er bærinn fallegri en í byrjun ársins 2012?
Það átti að efla menningar- og listfræðslu í skólum Kópavogs. Ekki hef ég orðið vör við slíka eflingu. Það átti að endurskoða reglur um tómstundastyrki til að fjölga valkostum. Það hefur EKKI verið gert, að minnsta kosti er það ennþá svo að börn í tónlistarnámi, í tónlistarbænum Kópavogi, fá ekki notið styrkjanna.
Svona mætti áfram telja en mín niðurstaða er þessi. Meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa sem nú er að mestu búinn að færa sig yfir til Bjartar framtíðar, hefur verið AFAR VERKLAUS, svo ekki sé meira sagt.
Bæjarstjórinn hreykti sér á dögunum af því að afkoma bæjarsjóðs væri 10 sinnum betri en áætlun. Þegar nánar er skoðað er „árangurinn“ til kominn vegna tveggja þátta. Hagstæðs gengismunar upp á 300 milljónir króna og sölu lóða upp á 660 milljónir króna. Er þetta Ármanni og félögum að þakka? Nei, við öll, Kópavogsbúar, vorum heppin að búa núna við hagstæðan gengismun og sala á lóðum var ekki sett í áætlun í samræmi við ákvörðun sem tekin var af öllum bæjarfulltrúum fljótlega eftir hrun. Ármann á ekki meira í þeirri ákvörðun en hinir bæjarfulltrúarnir tíu.
Við skulum gleðjast en meirihlutinn ætti að vara sig á að eigna sér árangurinn. Þegar markmið þeirra og verkefnalistinn er skoðaður ætti öllum að vera ljóst að þessi meirihluti hefur dræmum árangri náð fyrir Kópavog og þessi síðustu tvö ár hafa einkennst af kyrrstöðu, skorti á sýn um hvert Kópavogur á að stefna og litlum metnaði fyrir hönd bæjarbúa.
-Ása Richardsdóttir skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar