
Á síðasta bæjarstjórnarfundi voru ársreikningar bæjarins fyrir árið 2015 samþykktir. Kópavogur er eitt skuldugasta sveitarfélag landsins og því ætti forgangsverkefni okkar að vera að lækka skuldirnar. Því miður hefur núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar ekki gengið sem skyldi í því verkefni. Við samþykkt ársreikninganna lagði ég fram eftirfarandi bókun: „Rekstrarniðurstaða Kópavogs- bæjar árið 2015 er verri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig var rekstrarniðurstaða A hluta neikvæð um 222 m.kr. en gert var ráð fyrir 147 m.kr. afgangi. Þegar B hluti samstæðunnar er tekinn inn þá er 161 m.kr. afgangur af rekstri bæjarfélagsins. Til samanburðar þá var rekstrarafgangur bæjarfélagsins árið 2014 660 m.kr. og hefur því lækkað um 500 m.kr. á milli ára. Þá er ljóst að lífeyrisskuldbindingar eiga eftir að hækka um hundruðir milljóna ef sömu forsendur verða notaðar og hjá Reykjavíkurborg. Skuldir og skuldbindingar bæjarins hækka í krónum talið á milli áranna 2014 og 2015 en lækka örlítið að raungildi þegar tillit er tekið til verðlagsbreytinga. Skuldahlutfallið lækkar úr 175,2% í 161,8% á milli ára og skýrist sú lækkun fyrst og fremst að fleiri íbúar eru á bak við skuldir og skuldbindingar bæjarins en íbúum Kópavogs fjölgaði um 1010 á ár- inu 2015. Það er hins vegar ljóst að rekstur bæjarins verður mjög þungur ef verðbólgan fer á skrið – en síðustu 2 ár hafa verið mjög hagfelld í þeim efnum. 5% hækkun á verðlagi myndi leiða til allt að 1500 milljóna króna verri rekstrarniðurstöðu. Það er því mikilvægt að bæjaryfirvöld gæti aðhalds í rekstri og raun dapurlegt að ekki hafi náðst betri árangur til lækkunar skulda en raun ber vitni.“