Molinn er ungmennahús þar sem ungu fólki á aldrinum 16 – 25 ára gefst tækifæri til að koma listum og menningu sinni á framfæri. Þar gefst ungu fólki tækifæri á að koma með hugmyndir sínar og starfsfólkið hjálpar þeim að koma þeim í framkvæmd og ýta undir að þær verði að veruleika. Hlúð er að réttindum ungs fólks í samfélaginu og hvatt til lýðræðislegrar og skapandi hugsunar.
Með því að hafa aðgang að faglegri starfsemi þar sem forvarnarsjónarmið eru í hávegum höfð er aukið við heilbrigða kosti sem ungt fólk hefur úr að velja í frítíma sínum. Félagsmiðstöðva- og íþróttastarf hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og ungmennahúsin eru tilvalin kostur fyrir þá sem ekki passa þar inn sökum aldurs eða áhugaleysis.
Í vetur verður margt skemmtilegt á dagskrá í bland við hefðbundna starfsemi í Molanum. Má þar nefna tónleika með ungu og upprennandi tónlistarfólki; fyrirlestra, smiðjur og ýmsir aðra menningarviðburði.
Molinn er opin þriðjudaga og miðvikudaga frá klukkan 14:00 – 22:00. Á fimmtudögum er opið frá klukkan 14:00 – 23:00 og 14:00 – 21:00 á föstudögum.