Vettvangur minninganna

Sveinn og höfundur með skilti undir höndum en bakvið má sjá borðið þar sem margar endurminningar voru færðar í letur.
Sveinn ásamt höfundi fyrir framan skúrinn við Nýbýlaveg 54.

Sveinn stóð löngum stundum við vinnuborð sitt í skúrnum við Nýbýlaveg 54 þar sem hann sýslaði við eitt og annað. Hann teiknaði og skar út stafi sem síðar rötuðu á búðarglugga og smábáta. Og hann hripaði niður stuttar frásagnir frá liðnum dögum litlar stílakomur. Sveinn var kominn á efri ár og það var margs að minnast og auðvelt að láta hugann reika þar sem hann stóð og horfði út um gluggann en við blasti ræktarlegur bakgarður og tvílyfta íbúðarhúsið sem hann reisti undir lok seinni heimsstyrjaldar.

Síðastliðinn vetur skrifaði ég nokkrar greinar um Svein Mósesson og fjölskyldu hans en þær fjölluðu allar um tímann þegar byggð tók að myndast í Kópavogi um og upp úr 1940. Sveinn átti langa starfsæfi að baki þegar hér var komið sögu og margt hafði breyst síðan hann flutti í Kópavog rétt fyrir seinna stríð. Áður hafði hann sótt mestalla vinnu til Reykjavíkur enda var lítið atvinnulíf í Kópavogi fyrstu árin. Hann starfaði lengi sem málari en söðlaði síðan um og stofnaði eigin skiltagerð sem síðast gekk undir nafninu Skilti og merki. Sveinn var alla tíð einstaklega vinnusamur en tók þó að minnka við sig þegar hann nálgaðist sjötugsaldurinn og flutti hann þá skiltagerðina í skúrinn við heimili sitt þar sem hann hélt starfsemi sinni áfram frá því upp úr miðjum áttunda áratugnum fram til loka þess níunda.

Sveinn seldi mikið af stökum sjálflímandi stöfum sem trillusjómenn notuðu til að merkja báta sína eða kaupmenn til að koma skilaboðum á framfæri í búðargluggum. Allt var gert í höndunum. Verkfærinn voru að miklu leyti hnífur, skæri og reglustika til að skera eftir. Sveinn seldi einnig töluvert af skiltum og keypti Kópavogskaupsstaður um árabil skilti af honum til að merkja götur bæjarins. Eina maskínan var lítil handstýrð grafvél, en það var helst hún sem fékk Svein til að setjast niður, og var afraksturinn einkum skilti á krossa.

Sveinn lagði mikið upp úr að vera eigin herra. Auðsöfnun var honum lítils virði en hann vildi hafa sem mest um eigið líf að segja og kunni því illa að vera háður duttlungum annarra. Yfir vinnustaðnum hvíldi þægileg ró en það sem helst rauf kyrrðina var notalegt malið í Ríkisútvarpinu og lágvært blístur húsráðandans. Og annað slagið mátti heyra dyrnar opnast og viðskiptavininn gera vart við sig – kannski með því að segja hvellt „góðan dag“ – en þil var á milli afgreiðslu og vinnusvæðis. Það var aldrei neinn asi á Sveini og hann gaf sér jafnan góðan tíma til að spjalla við þá sem inn komu og leit á marga sem góðvini sína en það átti einkum við um sjómennina enda var hann af sjósóknurum kominn.

Sveinn og höfundur með skilti undir höndum en bakvið má sjá borðið þar sem margar endurminningar voru færðar í letur.

Skúrinn var ekki einungis vinnustaður heldur einnig griðastaður. Þar hafði Sveinn eitthvað við að vera og fékk um leið svalað félagsþörfinni. Og þar urðu til ófáar frásagnir sem hann skráði í minnisbækur sínar af fyrri tíð og var ekki hvað síst dvalist við æskuárin í Dýrafirði þar sem hann gætti ánna eftir fráfærur og réri á árabátum því hann ólst upp á síðustu árum gamla bændasamfélagsins. Og sitthvað færði hann í letur um fyrstu árin í Kópavogi, þar sem hann var meðal frumbyggja, en hann sá hvernig dreifbýlt sveitasamfélag varð að nútímabæjarsamfélagi á undraskömmum tíma. Fyrir Sveini var vinnuborðið við gluggann ekki hvað síst vettvangur minninganna.

Leifur Reynisson, sagnfræðingur.

Umræðan

Fleiri fréttir

Lyfjaskolp við Gvendarbrunna – skipulagsslys við Gunnarshólma

AðsentMeirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur samþykkt að skoða alvarlega áform um að reisa heilsutengt ofurþorp fyrir 15.000 manns við Gunnarshólma, í miðju vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er þekkt flóðasvæði þar sem áin Suðurá flæðir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar