„Við erum herramenn, ekki karlrembur!“

Rakarastofan Herramenn, á Neðstutröð 8 – gegnt bæjarskrifstofunum í Fannborg – var stofnuð árið 1961 og telst því eitt elsta fyrirtæki Kópavogs. Sumir segja að nálægðin við stjórnmála- og embættismenn bæjarins sé það mikil að rakarastofan sé hin eiginlega „bæjarstjórnarskrifstofa“ Kópavogs – eða að minnsta kosti fréttastofa.

Feðgarnir Andri Týr Kristleifsson og Gauti Torfason reka saman rakarastofuna Herramenn, eitt af elstu fyrirtækjum bæjarins.
Feðgarnir Andri Týr Kristleifsson og Gauti Torfason reka saman rakarastofuna Herramenn, eitt af elstu fyrirtækjum Kópavogs.

„Við fáum stundum slúðrið úr pólitíkinni og bæjarlífinu beint í æð hérna þegar við erum að klippa og raka menn,“ segir Gauti Torfason, eigandi og hársnyrtimeistari kíminn, „en pólitíkin er samt orðin svo leiðinleg undanfarið að við nennum varla að ræða það – það er margt skemmtilegra í lífinu en pólitík. Að auki er allt það sem er rætt í stólnum hjá okkur algjört trúnaðarmál. Við erum stundum svona ódýrir sálfræðingar og tökum það hlutverk mjög alvarlega – við sverjum hollustueið við kúnnana.“

-Hver er sagan á bak við rakarastofuna Herramenn?

„Pabbi minn, Torfi Guðbjörnsson, opnaði þessa rakarastofu hér á þessum stað árið 1961 og hún hefur verið hér allar götur síðan. Ég tók síðan við og nú er sonur minn, Andri Týr, kominn í reksturinn með mér þannig að hann er þriðja kynslóðin hér. Kollegar pabba sögðu hann alveg kolklikkaðann að opna hér rakarastofu á þessum útnára sem Kópavogur var á þeim tíma.  Á þessum árum var akkúrat ekki neitt í Kópavogi og þetta var eina húsið hér á hálsinum. Hann byrjaði í skúrnum hér bakatil en einhvernveginn hafðist þetta hjá honum. Húsmæðurnar í hverfinu sendu börnin sín í klippingu til hans og þannig gekk þetta. Síðan komu trésmiðjur í Kópavoginn og atvinnulífið í bænum fór að glæðast. En sá gamli sannaði að það var vel hægt að reka svona stofu í íbúðahverfi.“

-Og hvernig hefur svo reksturinn gengið í öll þessi ár?

„Börnin sem komu fyrst í klippingu uxu úr grasi og héldu áfram að koma. Við erum ennþá með kúnna sem hafa aldrei farið neitt annað í klippingu á ævi sinni – þótt þeir hafa flutt í annað sveitarfélag! Það er alveg magnað. Við náðum því, rétt áður en pabbi dó árið 2004, að klippa hér unga dömu sem var þá 5. kynslóð viðskiptavina. Ég held að það sé algjört einsdæmi. Reksturinn byggist því að miklu leyti á fastakúnnum en með yngri mönnum koma nýjar og breyttar áherslur í takt við tíðarandann. Það hefur reynst okkur mjög vel að byggja upp náin og góð tengsl við okkar viðskiptavini.

-En þið klippið bara karlmenn, er það ekki?

„Jú, þetta er fyrst og fremst rakarastofa fyrir karlmenn. Í gamla daga var þetta skýr aðgreining. Karlar fóru á rakarastofur en konur á hárgreiðslustofur.  Á 8. og 9. áratug síðustu aldar breyttist þetta og varð meira sameinað fyrir kynin – en við höfum haldið þessu óbreyttu hjá okkur og höfum haldið okkur við rakarastofuna. Enda erum við sérfræðingar í því.

-Þetta er þá svona karlrembubúlla, er það ekki?

„Nei,“ segir Gauti ákveðinn. „Við erum herramenn, ekki karlrembur. Það er mikill munur þar á. Við erum algjörir fagmenn og fágun er okkar fag. Við erum sérfræðingar í rakstri og skegghirðu sem menn fá ekki annarsstaðar. Karlremburnar mega fara eitthvert annað,“ segir Gauti Torfason, eigandi og hársnyrtimeistari rakarastofunnar Herramenn á Neðstutröð.

Þrjár kynslóðir rakara á rakarastofunni Herramönnum. Torfi Guðbjörnsson, sem situr, lést árið 2004.
Þrjár kynslóðir Herramanna á Neðstutröð 8. Torfi Guðbjörnsson, sem situr, lést árið 2004.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar